Myndskeið: Hársbreidd frá því að lenda undir bíl

Skjáskot úr myndskeiðinu.
Skjáskot úr myndskeiðinu.

Minnstu mátti muna að illa færi þegar Árni Ólafsson hjólaði yfir gatnamót við Stórhöfða í morgun.

Árni var þar á ferð á leið til vinnu og var við það að fara yfir á síðari vegarhelming gatnamótanna á grænu ljósi þegar bíll kemur aðvífandi og ökumaður bílsins ekur fyrir hann. 

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði er Árna afar brugðið þegar bíllinn kemur á fleygiferð.

Sentímetraspursmál 

„Ég er sæmilega meðvitaður því ég hjóla þarna á hverjum morgni og lít eftir því þegar fólk í bílum bíður, en þarna beið enginn. Hann kemur bara þarna á fleygiferð og ég veit aldrei af honum fyrr en hann er kominn við dekkið hjá mér,“ segir Árni. 

Að sögn hans var um sentimetraspursmál að ræða. 

„Ég snarbremsaði og steig niður og náði aðeins að toga mig til baka.“

Árni var á leið til vinnu en hann býr í Laugardal en vinnur á Höfða. Hann segist áður hafa lent í því að vera nærri því að keyrt væri á hann. 

„Þess vegna keypti ég myndavélina, svo hægt væri að ná þeim sem keyrði á mig ef það myndi gerast,“ segir Árni.

Vel merktur 

Árni Ólafsson hjólreiðamaður.
Árni Ólafsson hjólreiðamaður. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir að bíllinn hafi komið aftan að honum þar sem hann var á sömu leið og hann sjálfur. Var bíllinn að beygja á gatnamótunum og líkur á því að hann hafi farið yfir á grænu ljósi eins og Árni. 

„Ég veit ekki hvað ég hefði getað gert öðruvísi. Hann kom aftan að mér og tekur þessa harkalegu beygju fyrir mig,“ segir Árni. 

Hann segist vel merktur. Með tvö ljós að aftan og ljós að framan auk þess að vera í gulum jakka svo hann sé eins sjáanlegur og hægt er. 

Hann tók niður bílnúmerið á bílnum og segist nú vita hver það var sem næstum keyrði á hann. Hann hefur ekki sett sig í samband við viðkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert