„Vildi að þau hefðu getað upplifað þetta“

Ali Faisal Al Hammadah er einn þeirra fjölmörgu Sýrlendinga sem …
Ali Faisal Al Hammadah er einn þeirra fjölmörgu Sýrlendinga sem hafa komið til Íslands á undanförnum árum vegna borgarastríðsins sem geysaði í Sýrlandi. Hann ræddi við mbl.is um stöðuna í heimalandinu. mbl.is/Eyþór

Sýr­lend­ing­ar fagna því al­mennt að stjórn Bash­ar al-Assads sé fall­in í Sýr­landi, en á sama tíma er sorg­legt að all­ir þeir fjöl­mörgu sem hafa fallið í bar­átt­unni við stjórn­ina fái ekki að upp­lifa nýja landið. Þetta er meðal þess sem Ali Faisal Al Hamma­dah seg­ir í sam­tali við mbl.is.

Hann er 21 árs gam­all raf­virki sem kom til Íslands fyr­ir tæp­lega níu árum með systkin­um sín­um og móður, en áður höfðu faðir hans og bróðir látið lífið vegna stríðsins. Í dag seg­ist hann eng­an eiga leng­ur að í Sýr­landi, en tug­ir fjöl­skyldumeðlima lét­ust í stríðinu.

Und­an­farna daga hafa hon­um borist frétt­ir af því að nokkr­ir vina hans sem hand­tekn­ir voru á barns­aldri hafi losnað úr hrylli­leg­um fang­els­um Assad-stjórn­ar­inn­ar, en þeir höfðu verið í fang­elsi og ekki séð sól­ina í yfir ára­tug.

Hann seg­ir óvissu ríkja um fram­haldið og hvað taki við þegar kem­ur að stjórn lands­ins, en að há­vær­asta kraf­an sé að Sýr­lend­ing­ar fái sjálf­ir að stjórna eig­in mál­um án þess að önn­ur lönd reyni að stýra eða hafa áhrif. Þá leggi hann áherslu á að ekki verði gerður grein­ar­mun­ur á fólki eft­ir trú­ar­brögðum eða þjóðflokk­um og seg­ir hann að fyr­ir borg­ara­stríðið hafi slíkt skipt al­menn­ing í Sýr­landi litlu máli.

Nótt­in af­drifa­ríka

Ali er fædd­ur í borg­inni Homs í Sýr­landi. Þar bjó hann ásamt for­eldr­um sín­um og þrem­ur systkin­um. Þegar hann var um 9 ára brýst borg­ara­stríðið út. Homs var ekki fyrsta borg­in til að verða fyr­ir árás­um, en Ali seg­ir að síðar hafi komið að því og þá hafi stjórn­ar­her­inn farið fram með mikl­um krafti.

Rifjar hann upp að faðir sinn hafi gengið til liðs við svo­kallaðar hvít­húf­ur þegar stríðið braust út, en það er sjúkra­flutn­inga- og björg­un­ar­fólk. Nótt eina þegar árás­in stóð sem hæst yfir hafi pabbi hans verið að aðstoða eig­in fjöl­skyldu og aðra ná­granna að koma sér frá mestu átök­un­um. Hann hafi sagt fjöl­skyld­unni að halda áfram meðan hann at­hugaði með bróður sinn sem var aðeins aft­ar. Þá hafi faðir hans orðið fyr­ir skoti og dag­inn eft­ir fékk fjöl­skyld­an að vita að hann væri lát­inn.

Elsti bróðir­inn hvarf einnig þessa sömu nótt og í raun heyrði fjöl­skyld­an ekk­ert af hon­um fyrr en tveim­ur árum síðar þegar þau heyrðu frá fé­lög­um hans sem töldu að bróðir­inn hafi fallið þessa nótt. Fjöl­skyld­an hef­ur þó aldrei fengið nán­ari staðfest­ingu og viður­kenn­ir Ali að nú þegar fang­els­in hafi verið opnuð hafi ör­lít­il veik von komið fram um að vita meira um af­drif bróður síns. Hann telji slíkt þó ólík­legt úr því sem er komið.

Þessa um­ræddu nótt náði stjórn­ar­her­inn Homs og fjöl­skyld­an flúði dag­inn eft­ir ásamt frænd­fólki sínu til Líb­anon þar sem þau voru í nokk­urn tíma áður en ís­lensk stjórn­völd buðu þeim að koma til lands­ins. Það var í janú­ar 2016, en Ali seg­ir að þá hafi þau hvorki kunnað ís­lensku né ensku, en hann hafi þó kunnað smá í frönsku.

Fyrstu dag­arn­ir og vik­urn­ar hafi verið erfiðar í óviss­unni hér, en þau hafi fengið út­hlutað al­veg frá­bær­um ís­lensk­um tengiliðum eða fjöl­skyld­um, sem hafi stutt við bakið á þeim. Kalli þau fólkið, hjón­in Pál Braga­son og Guðbjörgu Hjör­leifs­dótt­ur, auk Gyðu Þóris­dótt­ur, fjöl­skyld­una sína í dag.

Gleði en sorg líka of­ar­lega í huga

Spurður út í þá þróun sem hef­ur orðið í Sýr­landi síðustu vik­una seg­ir Ali að al­menna hugs­un­in sé að gleðjast yfir því að Assad og fjöl­skylda hans séu ekki leng­ur við stjórn. Hann seg­ist telja að ein­hverj­ir kraft­ar sem eigi eft­ir að koma bet­ur í ljós síðar séu á bak við þessa miklu sókn, en að aðal­málið í dag sé að það taki eitt­hvað betra við en Assad.

En á sama tíma og gleðin rík­ir þá seg­ir Ali að sorg­in sé hon­um einnig of­ar­lega í huga. „Ég get ekki lýst gleði minni yfir því sem er að ger­ast í Sýr­landi núna. Við erum mjög glöð núna, en það er líka sorg­legt að það fólk sem hef­ur dáið fái ekki að sjá þessi tíma­mót. Það hafði dreymt um að þetta myndi ger­ast einn dag­inn.“

Myndir og minnisvarðar um Assad og fjölskyldu hans eru nú …
Mynd­ir og minn­is­varðar um Assad og fjöl­skyldu hans eru nú tek­in niður í Sýr­landi. AFP/​Mohammed al-Rifai

Sýr­lend­ing­ar skiptu aldrei máli

Ali seg­ir að hann heyri nú helst frá Sýr­lend­ing­um að þeir leggi áherslu á að önn­ur lönd muni ekki halda áfram með þau miklu ítök sem þau höfðu í Sýr­landi áður. „Loks­ins er Rúss­land út, Íran út, Tyrk­land út og Banda­rík­in út,“ seg­ir hann og bæt­ir við að fyr­ir þessi ríki hafi Sýr­lend­ing­ar aldrei skipt máli, held­ur hafi póli­tík, völd og nátt­úru­leg­ar auðlind­ir skipt mestu máli.

„Við vilj­um hafa Sýr­land eins og það var í gamla daga. Ég vissi aldrei þegar ég var 13 ára að ég væri súnní. Ég vissi að ég væri múslimi, ég fór í mosku, en vin­ur minn fór í kirkju og ég var aldrei að hugsa um þetta þegar ég var krakki,“ seg­ir Ali um hvernig hann sjái fyr­ir sér draumaniður­stöðu í Sýr­landi. Bend­ir hann á að í hverf­inu hans hafi verið fjöl­skyld­ur með mjög mis­mun­andi bak­grunn; súnní- og sjíamúslim­ar, kristn­ir, gyðing­ar og Kúr­d­ar.

Seg­ir hann þetta hafa breyst eft­ir að stríðið braust út, en að hann trúi því að þetta geti orðið staðan á ný.

Líður ekki vel ef HTS end­ar með stjórn­ina

Sá hóp­ur sem leiddi at­lög­una gegn stjórn Assads er íslam­ista­hóp­ur sem kall­ast HTS. Hóp­ur­inn á sér langa sögu í Sýr­lands­deil­unni og var upp­haf­lega stofnaður und­ir nafn­inu Jabhat al-Nusra árið 2011 í borg­ara­styrj­öld Sýr­lands og var ná­tengd­ur al-Kaída-sam­tök­un­um. Skil­greina vest­ræn ríki flest hver og Sam­einuðu þjóðirn­ar hóp­inn sem hryðju­verka­hóp.

Ali seg­ir að sér líði ekki vel með það ef þessi hóp­ur muni stjórna öllu í Sýr­landi. Fyrstu orð leiðtoga hóps­ins veki hins veg­ar upp von um að reyna eigi að byggja brýr milli mis­mun­andi minni­hluta­hópa í land­inu. „Ég er ekki með þeim 100% og ég er ekki með öðrum 100%, ég get ekki ákveðið með hverj­um maður á að standa,“ seg­ir Ali og vís­ar þar til þess hversu flókn­ir hags­mun­ir og áhersl­ur eru meðal þeirra fjöl­mörgu hópa sem nú munu vænt­an­lega koma að stjórn­un lands­ins með ein­hverj­um hætti.

Þekkti börn sem fóru í hryll­ings­fang­els­in

Þrátt fyr­ir fjöl­mörg ódæðis­verk sem Assad framdi gagn­vart eig­in þegn­um og ógn­ar­stjórn í 24 ár seg­ir Ali að hann hefði ekki viljað að hann yrði drep­inn held­ur að hann yrði leidd­ur fyr­ir dóm­ara og dæmd­ur þar. Niðurstaðan var hins veg­ar sú að Assad flúði til Rúss­lands þar sem hann fékk hæli.

Sem dæmi um grimmd­ar­verk Assads hef­ur heims­byggðin fengið að fylgj­ast með því und­an­farna daga þar sem Sýr­lend­ing­ar brjót­ast inn í fang­elsi þar sem tugþúsund­um póli­tískra fanga var haldið, en marg­ir sem þar eru inni hafa verið þar í yfir ára­tug. Hef­ur föng­um verið haldið neðanj­arðar við skelfi­leg­ar aðstæður og án þess að fjöl­skyld­ur þeirra vissu um af­drif þeirra.

Ali nefn­ir að hann hafi sem barn þekkt nokkra stráka sem voru hand­tekn­ir þegar þeir voru 12-13 ára og með hon­um í skóla. Voru þeir grunaðir um að skrifa hvatn­ing­ar­orð fyr­ir upp­reisn­ina. Ekk­ert hafi spurst til þeirra þangað til núna í vik­unni, en hann seg­ir að frétt­ir hafi birst í hóp­um á sam­fé­lags­miðlum frá gamla hverf­inu hans um að þeir væru á meðal þeirra sem losnuðu úr fang­elsi. Seg­ir Ali þá hafa verið meðal þeirra fjöl­mörgu sem voru geymd­ir niðri í jörðinni án sól­ar­ljóss í fjölda ára.

Þá vís­ar hann einnig til þess að und­an­farna daga hafi þeir sem losnuðu út upp­lýst um fólk sem hafi dáið í fang­els­un­um. Með því hafi fjöldi fjöl­skyldna í fyrsta skipti fengið end­an­lega vitn­eskju um af­drif ást­vina sinna.

Hryllingssögur af fangelsum Assads berast nú frá Sýrlandi. Ali segist …
Hryll­ings­sög­ur af fang­els­um Assads ber­ast nú frá Sýr­landi. Ali seg­ist þekkja til drengja sem voru ekki nema um 13 ára þegar þeir voru hand­tekn­ir og voru þeir í haldi neðanj­arðar í yfir ára­tug þangað til þeir losnuðu í vik­unni. mbl.is/​Eyþór

Fólk sem ekki hlýddi gat sætt refs­ing­um

Spurður hvort ekki sé lík­legt að farið verði í hefnd­araðgerðir gegn þeim sem hafi unnið fyr­ir stjórn­völd og Assad seg­ir Ali að til að byrja með virðist alla­vega eiga að setja þá línu að þeir sem leggi niður vopn og gef­ist upp verði ekki sótt­ir til saka.

Seg­ir hann að það þurfi að horfa til aðstæðna flestra í þess­um aðstæðum þar sem unnið var fyr­ir ríkið í ein­ræðis­ríki þar sem leyniþjón­usta fylgd­ist með íbú­um. Seg­ir hann að þegar fólk vinni fyr­ir ríkið og ein­hver yf­ir­maður seg­ir þér að gera eitt­hvað geti óhlýðni sett þig á svart­an lista og ekki bara þig held­ur alla fjöl­skyld­una þína. Það geti leitt til hand­töku, pynd­ing­ar og jafn­vel þess að verða drep­inn.

Ali tek­ur þó fram að dæmi séu um fólk sem jafn­vel sé landsþekkt fyr­ir grimmd og hryll­ing og að hafa drepið marga eða kerf­is­bundið stýrt pynd­ing­um og nauðgun­um. Ali seg­ir ólík­legt að horft verði fram hjá slíku.

„Ég á eng­an leng­ur að í Sýr­landi“

Spurður hvað taki við hjá Ali og fjöl­skyldu hans nú ef ástandið í Sýr­landi mun batna til muna seg­ir Ali að hann telji ekki að hann muni flytja aft­ur til Sýr­lands. Rifjar hann upp að í það heila hafi hann misst 47 ætt­ingja í stríðinu og flest­ir aðrir hafi flúið landið. Ein­hverj­ir séu því í Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi og Líb­anon. „Ég á eng­an leng­ur að í Sýr­landi.“

Ítrek­ar Ali að hann sé von­svik­inn að þeir sem hafi lát­ist hafi ekki getað séð þessa sögu­legu stund. „Ég er ánægður en vildi að þau hefðu getað upp­lifað þetta.“

Hann tek­ur fram að hann hefði áhuga á að heim­sækja Sýr­land aft­ur, en að ljóst sé að all­ir sem hann þekki séu látn­ir eða hafi flúið. Hann eigi erfitt með að sjá það fyr­ir sér að flytja aft­ur þangað þar sem stór­fjöl­skyld­an kom sam­an á hverju föstu­dags­kvöldi og borðaði sam­an í garðinum. Ef hann færi til Sýr­lands yrði hann einn þar og eng­in fjöl­skylda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert