Davíð Þór: Sorglegt en „illskásti kosturinn“

Davíð Þór Jónsson sóknarprestur.
Davíð Þór Jónsson sóknarprestur. Ljósmynd/Árni Torfason

Sóknarpresturinn Davíð Þór Jónsson, sem leiddi Sósíalistaflokkinn í Suðvesturkjördæmi, segir niðurstöðu kosninganna vonbrigði og að sorglegt sé að sjá vinstrið hverfa af þingi.

Hann segir sósíalista opna fyrir umræðu um kosningabandalag og að afleggja þurfi kosningaskipulag landsins.

Í samtali við mbl.is nefnir Davíð einnig að úrslitin hafi ekki verið í stíl við fylgi flokksins í skoðunarkönnunum dagana á undan.

Kjósendur mögulega fælst frá á lokametrunum

„Það er bara viðfangsefni okkar og væntanlega skoðunarkönnunarfyrirtækja, að finna út úr því hvað veldur.“

Þá hvarflar að honum að hópur kjósenda hafi mögulega hætt við að kjósa flokkinn í kjölfar spálíkans sem birtist á kosningadegi og spáði að flokkurinn myndi ekki ná manni inn á þing.

„Ég veit ekki hvort það fældi einhverja hugsanlega frá. Ég veit það ekki, en það gæti verið ein skýringin.“

Davíð segir að niðurstaða kosninganna hafi komið honum á óvart. Segir hann flokkinn hafa fengið viðunandi fylgi í Reykjavíkurkjördæmunum og að hann hefði verið sáttur ef það fylgi hefði einnig sést á landsvísu.

Ætlar að taka meiri þátt í störfum flokksins

Munt þú halda áfram störfum fyrir flokkinn?

„Ég er búinn að vera félagi í flokknum, þó að ég hafi ekki verið virkur nema kannski í stuttan tíma, en ég er ekki hættur í flokknum og ég hef í hyggju að taka meiri þátt í störfum hans í framtíðinni.“

Segir Davíð að flokkurinn muni nú einbeita sér að næstu sveitarstjórnarkosningum.

„Við erum með borgarfulltrúa og við erum komin til að vera. Við höfum haft töluverð áhrif í verkalýðsbaráttu með endurreisn leigjendasamtakanna og með Samstöðinni sem er ákveðin bylting í fjölmiðlaflórunni.

Þannig það er alveg hægt að hafa áhrif þó að maður sé ekki á Alþingi, þó að það sé náttúrulega stóri sápukassinn.“

Aðspurður segir hann það ekki tímabært að segja til um hlutverk sitt fyrir flokkinn í næstu sveitarstjórnarkosningum. Oddvitasæti hans í Suðvesturkjördæmi hafi verið fyrsta trúnaðarverkefni hans fyrir flokkinn og að það sé í höndum félaga hans í flokknum að ákvarða hvað framtíðin muni bera í skauti sér.

Messaði að morgni daginn eftir kjördag

Hver eru næstu skref þín í þínu persónulega lífi, utan flokksins?

„Þegar mér varð ljóst að félagar mínir treystu mér til þess að vera oddviti í Suðvesturkjördæmi þá náttúrulega lagðist ég undir feld og ég komst að því að ég gæti ekki brugðist því trausti sem mér var sýnt.

Ekki af því að ég hafði einhvern persónulegan metnað heldur fannst mér mér bera skylda til þess. Stundum er málstaðurinn stærri en einstaklingarnir. Mér fannst ég ekki geta sagt nei og ég hugsaði einmitt með mér, að það versta sem gerist er að ekkert gerist. Og ég messaði að morgni daginn eftir kjördag og er bara kominn aftur í vinnuna.“

Var það sérstök tilfinning að vera kominn aftur í messuna beint eftir kosningar?

„Ég tók út óútleyst sumarleyfi og splæsti því í kosningabaráttuna. Það var alltaf ljóst, hvernig sem hefði farið, að ég myndi alltaf mæta aftur í vinnuna. Spurningin var hvort mitt fyrsta verk hefði verið að tala við minn yfirmann og semja um starfslok eða ekki, og niðurstaðan var sú að ég þurfti ekki að gera það.“

Tvær blokkir á þingi

Hvernig líst þér á stjórnarmyndunarumræðurnar og þá þrjá flokka sem eru í samtali?

„Ég held að úr því að úrslit kosninganna urðu eins og þau eru þá sé þetta stjórnarmynstur illskásti kosturinn í stöðunni. En það náttúrulega segir rosalega sorglega sögu, að mínum dómi um niðurstöður þessara kosninga, að vinstrisinnaðasta stjórnin sem hægt er að mynda með þessum þingstyrk skuli vera með Viðreisn innanborðs,“ segir Davíð og heldur áfram:

„Eins og ég sé þetta þá eru núna tvær blokkir á þingi, þ.e. þjóðernisöfgahægrið annars vegar og hófsama miðjuhægrið hins vegar, og svo Sjálfstæðisflokkurinn þar mitt á milli. Mér finnst voðalega sorglegt að við séum að horfa á Alþingi þar sem hin pólitíska miðja er Sjálfstæðisflokkurinn, sérstaklega í ljósi þess að vinstri flokkarnir sem buðu fram í þrennu lagi hefðu sennilega fengið átta þingmenn hefðu þeir boðið fram saman.“

Áfellisdómur yfir kosningakerfinu okkar

En er það þá eitthvað sem vert er að skoða eða greina, hvort vinstrið sé of sundrað og hvort reyna þurfi að finna einhvern sameiginlegan flöt?

„Það er náttúrulega ljóst að aðeins einu sinni áður í sögunni hafa jafnmörg atkvæði ekki skilað þingmanni og ég held að það sé fyrst og fremst áfellisdómur yfir kosningakerfinu okkar.

Það eru til dæmis engin rök fyrir því að Reykjavík sé skipt í tvö kjördæmi og hvað þá Norðvestur og Suðvestur. Á sínum tíma voru einu rökin þau að reyna að hafa kjördæmin sirka jafn stór en þau rök eru löngu fallin um sjálf sig þegar Suðvestur er orðið tvöfalt stærra en Norðvestur.“

Bendir Davíð á að ef Reykjavík væri eitt kjördæmi með átján þingmenn í stað tveggja með níu hefðu sósíalistar fengið tvo kjördæmakjörna menn í borginni.

„Að sjálfsögðu væri það miklu sanngjarnara og í raun ætti landið að vera eitt kjördæmi af því að þrátt fyrir þetta þá er næstum því tvöfaldur atkvæðavægismunur á því þar sem er mest.“

Segir hann það mikilvægt fyrir lýðræði landsins að þjóðin afleggi það kosningaskipulag sem hún býr nú við.

Ekki að reyna að sameinast öðrum

„En hvað varðar sameiningu þá erum við ekki í einhverju „panikk“ núna að reyna að sameinast Vinstri grænum og hvað þá Pírötum, sem eru eiginlega varla vinstriflokkur og meira að segja gefa það stundum út að hægri og vinstri séu ekki til,“ segir sóknarpresturinn og heldur áfram:

„Þannig að ef þeir ætla að hanga á því þá er enginn grundvöllur fyrir neins konar sameiningu þar á milli og Vinstri græn þurfa nú bara að hugsa sinn gang. Það er spurning hvort sú hreyfing sé liðin undir lok eða ekki og þá er það spurning: Hvert fara kjósendur Vinstri grænna?“

Hugsanlega til í umræðu um kosningabandalag

Hann bendir á Reykjavíkurlistann, sem var sameiginlegt framboð félagshyggjufólks úr fjórum mismunandi flokkum í þrennum borgarstjórnarkosningum árin 1994, 1998 og 2002.

„Reykjavíkurlistinn byrjaði sem kosningabandalag með eins konar fléttulistaflokka,“ rifjar hann upp.

„Án þess að við værum til í einhverja umræðu um sameiningu þá værum við hugsanlega til í umræðu um einhvers konar kosningabandalag, þ.e.a.s. það er alveg eitthvað sem við myndum ræða okkar á milli í fullri alvöru, án þess að ég sé endilega að segja að það yrði grænt ljós þá væri það samtalsins virði að velta því fyrir sér hvort það væri einhver flötur fyrir því.“

Samfylkingin færst töluvert langt til hægri

Segir hann það geta mögulega verið byrjun á því að mynda bandalag flokka sem standi vörð hver um sig um sínar áherslur en snúi bökum saman að sameiginlegum markmiðum sem væru þá álitin mikilvægari, án þess að vera að mynda einhvern stóran flokk vinstra megin við Samfylkinguna, sem Davíð segir hafa færst töluvert til hægri.

„Mér finnst voðalega sorglegt að vinstrisinnaðasti flokkurinn á Alþingi skuli vera Samfylking Kristrúnar Frostadóttur, sem varla rís undir nafni sem vinstriflokkur,“ segir Davíð.

„Það er enginn vafi á því að Kristrún hefur fært Samfylkinguna töluvert langt til hægri.“

Bættu við sig fylgi

Spurður að lokum hvort hann hafi trú á Sósíalistaflokknum til lengri tíma og inn í framtíðina er hann fljótur að taka fram að flokkurinn hafi bætt við sig fylgi í kosningunum.

„Við skulum byrja á því að hafa það á hreinu. Það gerðu það nú ekki allir flokkar.“

Hann segir að fylgið hafi vissulega ekki verið eins mikið og hafði verið spáð en að flokkurinn upplifi það að fólk sé jákvæðara í garð hans heldur en í kosningunum fyrir þremur árum og að það hafi fundist úti í samfélaginu.

„Þannig að jarðvegurinn fyrir okkar boðskap er að verða frjórri og frjórri, bara ekki eins hratt og við vonuðum,“ segir Davíð en tekur undir orð blaðamanns mbl.is um að góðir hlutir gerist nú oft hægt.

„Það má segja það. Góðir hlutir gerast hægt og ef við höldum áfram að bæta við okkur fylgi á þessum hraða þá endum við á þingi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert