Miklar annir hafa verið við hjónavígslur hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu í ár. Allir tímar í desember eru uppbókaðir.
„Það er ótrúlegur fjöldi sem hefur gift sig það sem af er ári hjá okkur,“ segir Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu. Boðið er upp á hjónavígslur hjá embættinu fyrir og eftir hádegi á fimmtudögum og föstudögum. Tímum var bætt við í sumar og á gamlársdag sem hefur lengi notið vinsælda til hjónavígslna.
„Þetta verða örugglega um 70 vígslur bara í desember. Í júlí voru þær 130 talsins,“ segir Sigríður sem var einmitt að búa sig undir að gefa saman hjón þegar Morgunblaðið náði af henni tali í gær. Flest brúðhjónin í ár hafa verið Íslendingar en þó eru alltaf einhverjir ferðamenn sem láta gefa sig saman hér á landi.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag