Leitin að Áslaugu Helgu B. Traustadóttur, sem fór að heiman á Tálknafirði á sunnudag, hefur enn ekki borið árangur. Hefur umfangsmikilli leit verið hætt um sinn.
Ekkert bendir til þess að hvarf hennar hafi borið að með saknæmum hætti.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.
Bifreið hennar fannst mannlaus á veginum rétt utan við þorpið á Tálknafirði, skammt frá flæðamálinu. Leitin hefur verið mjög umfangsmikil og nákvæm en henni hefur nú verið hætt um sinn. Leitinni verður fram haldið síðar með minna sniði.
„Svæðisstjórn björgunarsveitanna á svæði 6 og lögreglan á Vestfjörðum vilja færa þakkir til allra viðbragðsaðila á Vestfjörðum sem tóku þátt í leitaraðgerðunum. En ekki síður er þeim viðbragðsaðilum sem komu lengra að færðar sérstakar þakkir. Þá er forsvarsfólki fyrirtækja á svæðinu færðar þakkir fyrir mikilvægt framlag, t.d. í formi vinnuframlags starfsfólks, láni á bátum, búnaði, húsnæði, hráefni til matargerðar og fl.“
Fram kemur að slysavarnakonur á svæðinu hafi unnið mikilvægt verkefni, en það var að sinna matseld fyrir alla þátttakendur leitarinnar. Um 100 manns hafa komið að verkefninu.
„Lögreglan á Vestfjörðum hefur verið í sambandi við fjölskyldu Áslaugar undanfarna daga og upplýst um framvindu aðgerðanna. Hugur viðbragðsaðila er hjá ástvinum Áslaugar og öðrum ættingjum,“ segir í tilkynningunni.