„Eigum við ekki að segja bara að fall sé fararheill,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði og nýr þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr Suðvesturkjördæmi, en hún varð fyrir því óláni tveimur dögum eftir að alþingiskosningum lauk að hún rann í hálku við heimili sitt í Hafnarfirði.
Við það tvíúlnliðsbrotnaði þingmaðurinn. Rósa er mætt á kynningarfund fyrir nýja þingmenn sem nú stendur yfir á þinginu og sjá má að hún skartar gifsi á vinstri hendi.
„Ég var búinn að vera þingmaður í tvo daga þegar þetta gerðist. Var að fara með eitthvað dót í geymsluskúr á lóðinni minni og hugaði ekki nægilega vel að því að það var orðið glerhált ofarlega í garðinum. Þannig að ég flaug á hausinn. Ég datt illa á vinstri hliðina og í ljós kom að ég er með tvær pípur brotnar í úlnliðnum og er löskuð á öðru hnénu,“ segir Rósa.
Hún barmar sér þó ekki og segir allt vera á réttri leið en nú eru ellefu dagar frá óhappinu. Hún segist aldrei hafa beinbrotnað áður.
„Ég er bara þakklát fyrir að þetta hafi ekki verið verra. Ég datt niður í móti og var á smá hæð í garðinum þannig að þetta hefði nú alveg getað verið verra,“ segir Rósa.
Hún segir að hægt sé að líta svo á að tækifæri sé í öllum aðstæðum.
„Maður hefur líka litið á þetta sem tækifæri til að neyðast til að setjast upp í sófa og lesa jólabækurnar sem voru farnar að hrannast upp á borðinu,“ segir Rósa í gamansömum tón.
Að sama skapi segir hún að óhappið geri henni ljóst hve háður maður er heilsunni þegar kemur að daglegu amstri.
„Maður áttar sig á því að maður er háður höndunum í vinnunni sem gengur mikið út á hið ritaða orð. En þetta bara jafnar sig,“ segir Rósa.