Fulltrúar frá Hjálparstarfi kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd segja að minnst komi inn af jólapökkum fyrir unglingsstráka.
Pósturinn fór fyrstu ferð í vikunni eftir jólagjöfum sem safnast hafa undir jólatréð í Smáralindinni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.
Anna Kristinsdóttir, Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir og Guðrún Tómasdóttir í Mæðrastyrksnefnd segja að stærsta verkefni ársins sé jólaúthlutunin. Mæðrastyrksnefnd hefur fengið pakka úr Smáralindinni árum saman og þær segja það ómetanlegt.
„Þörfin er brýn, von er á um 500 manns, bæði fjölskyldum, einstaklingum og svo fjölgar því miður í hópi eldri borgara sem þurfa á aðstoð að halda um jólin,“ er haft eftir Guðrúnu í tilkynningunni, sem hefur starfað sem sjálfboðaliði í 30 ár.
Þær hvetja alla til að taka þátt í Pakkajólum Smáralindar, láta gott af sér leiða og stinga aukapakka handa bágstöddu barni undir tréð.
Þær minna á að hægt sé að gerast styrktaraðili með mánaðarlegum framlögum en síðan muni um hverja gjöf sem fari undir tréð í Smáralind.
„Það vantar svolítið jólagjafir fyrir eldri börnin, sérstaklega stráka á aldrinum 10-16 ára,“ er haft eftir Þórunni.
Mjöll Þórarinsdóttir, sem hefur umsjón með sjálfboðaliðum og Svavar Hávarðsson, fræðslu- og upplýsingafulltrúi, tóku á móti gjöfunum úr Smáralind fyrir hönd Hjálparstarfs kirkjunnar.
„Við erum óendanlega þakklát fyrir þessar veglegu gjafir því án þeirra væri þetta ekki mögulegt. Um 1700 fjölskyldur fá aðstoð fyrir jólin, inni í þeirri tölu eru 5000 börn. Það er erfið tilhugsun fyrir flesta að geta ekki haldið heilög jól fyrir börnin sín,“ er haft eftir Svavari.
Hjálparstarf kirkjunnar úthlutar gjöfum til barna á öllum aldri. „Ekkert barn er skilið út undan“, segir Mjöll og tekur fram að það komi minnst inn af pökkum handa unglingsstrákum.
„Til að gefa fólki einhverjar hugmyndir mætti t.d. setja alþjóðleg spil, brúsa, litla hátalara, einhverjar þrautir, t.d. töfratening eða fallega flík í pakkann fyrir þennan hóp.“