Aukadren í afturhluta gollurshúss, auk hefðbundinna drena, getur lækkað tíðni gáttatifs eftir opnar hjartaaðgerðir.
Þetta sýna niðurstöður íslenskrar rannsóknar sem birtist í vikunni í bandaríska vísindatímaritinu The Journal of Thoracic and Cardiovascular Surgery Open.
Luis Gísli Rabelo, læknanemi við Háskóla Íslands, er fyrsti höfundur greinarinnar en hann vann hana undir leiðsögn Tómasar Guðbjartssonar, hjartaskurðlæknis og prófessors.
„Að framkvæma þessa rannsókn hefur gefið mér tækifæri til að kafa djúpt í svið hjartaskurðlækninga og öðlast innsýn í hvernig rannsóknir geta mögulega haft áhrif á að bæta útkomu sjúklinga,“ segir Luis í samtali við mbl. „Ég brenn fyrir rannsóknum og elska það sem ég geri. Fyrir mér er fátt jafn gefandi og að nýta vísindin til að bæta lífsgæði sjúklinga.“
Eftir hjartaskurðaðgerðir eru dren, slöngur sem soga vökva, sett í brjóstholið til að tæma gamalt blóð sem safnast getur fyrir í gollurshúsi. En gollurshús er bandvefshjúpur sem umlykur hjartað.
„Drenin eru yfirleitt fjarlægð sólarhring eftir aðgerðina. Venjulega eru tvö dren sett, eitt framanvert við hjartað og hitt í vinstra brjósthol. Hins vegar hafa fáir skurðlæknar sett þriðja drenið í afturhluta gollurshúss og mætti að sumu leyti segja að Ísland hafi verið í fararbroddi hvað það varðar,“ segir Luis. „Nýverið hafa tengsl komið í ljós milli aukadrens í afturhluta gollurshúss og lækkaðrar tíðni hjartsláttaróreglu.“
Nýtilkomið gáttatif, ein tegund hjartsláttaróreglu, er algengasti fylgikvilli opinna hjartaskurðaðgerða og greinist hjá um þriðjungi sjúklinga eftir aðgerð. Gáttatif er truflun á rafleiðni hjartans. Það getur verið einkennalaust en algengustu einkenni þess eru hjartsláttaróþægindi, hraður óreglulegur hjartsláttur, mæði, svimi, og úthaldsleysi.
Rannsóknin skoðaði tengsl þess að setja dren í afturhluta gollurshúss og tíðni á gáttatifi. Þetta hefur lítið verið skoðað og aðeins þrjár mun minni rannsóknir birst fyrir þessa. Rannsóknin er umfangsmeiri en aðrar hafa verið en sjúklingar voru um 2.500 talsins.
Niðurstöður sýndu að aukadrenið lækkaði tíðni gáttatifs án þess að auka líkur á öðrum fylgikvillum. Þetta úrræði er að sögn Luis ódýrt, einfalt og nokkuð hættulaust.
Luis segir nauðsynlegt að staðfesta niðurstöðurnar með stærri slembirannsóknum, þar sem sjúklingum væri raðað handahófskennt.
Hann segir eina slíka þegar áætlaða og að stefnt sé að því að Landspítali verði þar í lykilhlutverki. Gert er ráð fyrir þátttöku allt að 10 sjúkrahúsa á Norðurlöndunum en höfuðstöðvar rannsóknarinnar verða í Svíþjóð.
„Ef niðurstöður rannsóknarinnar verða staðfestar í stærri slembirannsóknum gæti notkun aukadrens til að minnka vökva í afturhluta gollurshúss aukist á heimsvísu,“ segir Luis.
Mikilvægi þessarar rannsóknar felst í áhrifum gáttatifs eftir opna hjartaskurðaðgerð. Það getur lengt sjúkrahúsdvöl sem um leið eykur kostnað heilbrigðiskerfisins. Blessunarlega útskrifast 95% sjúklinga í reglulegum takti en engu að síður lengist sjúkrahúsdvöl þeirra sem fá fylgikvillann um tvo til þrjá daga og er því mikilvægt að gera allt til að reyna að fyrirbyggja það.
„Með rannsóknum eins og þessari fáum við tækifæri til að skilja betur hvernig við getum lækkað tíðni þessa algengasta fylgikvilla opinna hjartaaðgerða hjá sjúklingum og það er mér hjartans mál að nýta vísindin til að stuðla að framþróun og gera heilbrigðisþjónustu betri,“ segir Luis.
Ef tekst að staðfesta niðurstöður þessarar rannsóknar með stærri slembirannsóknum og góðum móttökum lækna við meðferðinni getur það lækkað tíðni fylgikvillans og þar með stytt sjúkrahúsdvöl eftir aðgerð. Þannig gæti bataferlið um leið orðið öruggara.