Íslenskt spjallmenni mun aðstoða kennara

Hluti starfshópsins stillir sér upp fyrir mynd á fyrsta fundi …
Hluti starfshópsins stillir sér upp fyrir mynd á fyrsta fundi hans. Frá vinstri: Ragnar Þór Pétursson, kennari í Norðlingaskóla, Árni Árnason, sviðsstjóri samskipta- og þjónustusviðs MMS, Lára Stefánsdóttir, skólameistari Menntaskólans við Tröllaskaga, Josh Klein, ráðgjafi og leiðtogi hópsins, Ásgeir Torfason, stafrænn leiðtogi MMS, Geir Finnsson, enskukennari og félagsmálafulltrúi í MH og Þorbjörg St. Þorsteinsson, verkefnastjóri Mixtúru. Ljósmynd/Aðsend

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu stendur nú fyrir þróun á gervigreindarverkfæri sem er ætlað til að aðstoða kennara á ýmsan hátt við starf sitt.

Verkfærið líkist eins konar spjallmenni og munu kennarar geta komið til með að spyrja það alls kyns spurninga er varða kennslu, til að mynda hvernig sé best að skipuleggja kennslu í takt við aðalnámskrá.

Sértækur gagnagrunnur

Gagnagrunnurinn byggir á öllum þeim gögnum sem Miðstöð menntunar býr yfir og er markmiðið að gera þau aðgengileg fyrir kennara á einu svæði og að þeir geti átt í samtali um þau við gervigreindina.

Frumlíkanið er tilbúið og hefur starfshópur Miðstöðvar menntunar, sem er skipaður fólki úr skólasamfélaginu, fengið að spreyta sig og spyrja spjallmennið hinna ýmsu spurninga.

Joshua Klein, sérfræðingur í gervigreind, leiðir verkefnið en hann hefur veitt mörgum af stærstu fyrirtækjum heims ráðgjöf.

Björgin aðstoðar við gerð spurninga

Verkfærið hefur fengið nafnið Björgin. Er því ætlað að aðstoða kennara m.a. með því að minnka skipulagslega byrði, veita þeim tól til að sníða námsefni að þörfum nemenda, veita aðstoð við gerð verkefna og spurninga úr námsefni, gera rauntímaþýðingar á kennsluefni aðgengilegar, koma með tillögur að námsefni og leiðsögn fyrir kennara og tryggja að kennsluefni uppfylli kröfur aðalnámskrár.

Eins og fyrr segir er frumlíkanið tilbúið en tíu manna starfshópur vinnur nú að því að prófa Björgina og veita endurgjöf í þeim tilgangi að þróa verkfærið áfram.

Joshua segir Ísland í einstaklega góðri aðstöðu til að innleiða spjallmenni á borð við þetta.

Er tæknin einungis ætluð kennurum eða mun hún einnig nýtast foreldrum og nemendum?

„Við höfum ekki enn tekið ákvörðun um það. Ástæðan fyrir því að við erum að leyfa kennurum að kynnast forritinu núna er meðal annars til þess að taka svona ákvarðanir og sjá hvernig við fáum sem mest út úr þessari tækni. Ég er ekki kennari þannig stærsta vandamálið sem ég þarf að leysa er að sjá til þess að gervigreindin muni raunverulega koma að gagni við kennslu og nýtast sem best,“ segir Joshua og heldur áfram:

„Til þess að það gerist þá þurfum við að leyfa þeim sem koma til með að nota hana að prófa sig áfram, þess vegna var þessum starfshópi komið á laggirnar. Síðar munum við fá inn fleiri að verkefninu sem hafa áhuga á gervigreind til að veita endurgjöf. Svo munum við halda áfram að fá enn fleiri til að bæta verkefnið og sjá til þess að hún nýtist sem flestum.“

Sum svör hreinn uppspuni

Spurður hvers vegna kennari sem væri vanur því að nota reyndara gervigreindarforrit, eins og ChatGPT, ætti að skipta yfir í Björgina sem væri nýlega þróað, nefnir Joshua meðal annars að spjallmenni á borð við ChatGPT séu ekki með aðgang að gagnagrunni MMS.

„Það sem skiptir jafnvel enn meira máli er að ChatGPT er með aðgang að alls konar gögnum á veraldarvefnum og á það til að veita svör sem eru hreinn uppspuni. Hluti af ástæðu þess að við ákváðum að ráðast í þetta verkefni er að við vildum reyna að koma í veg fyrir þann skaða sem gervigreindin getur valdið, en auk þess vildum við einnig nýta okkur þá kosti sem gervigreindin býr yfir.“

Þá séu gögn ChatGPT einnig hýst í Kaliforníu. Því geti verið varasamt þegar miklar upplýsingar frá kennurum eða nemendum safnast þar saman.

„Þegar þú spyrð spurninga þá enda gögnin þar og það eru engar hömlur á hvað má svo gera við þau gögn. Það kann ekki að vera vandamál í Kaliforníu en það er klárlega vandamál hérna á Íslandi, sérstaklega þegar evrópskar reglugerðir í kringum gervigreindina verða innleiddar í meira mæli hér þá verðum við að taka mið af þeim.“

Minna um hömlur í Bandaríkjunum, meira regluverk í Evrópu

Talandi um persónuvernd, þið hljótið að hafa þurft að taka mið af henni við þróun verkefnisins?

„Já, algjörlega. Þetta er líka sérstaklega áhugaverður tímapunktur varðandi þetta. Bandaríkin ákváðu að beita ekki miðlægri stýringu þegar kemur að þróun gervigreindar, þannig að þar munum við væntanlega sjá þróun gervigreindar með mikilli áherslu á hvernig sé hægt að auka gróða, þar verður meira um nýsköpun og minna um hömlur. Á sama tíma hefur Evrópusambandið ákveðið að nálgast þetta mál með meiri áherslu á regluverk og miðlæga stýringu. Ísland lendir þarna einhvers staðar á milli. Þetta er lítið og lipurt land,“ segir Joshua og bætir við:

„Við vitum að kennarar eru að nota tækni á borð við ChatGPT og önnur gervigreindarverkfæri sem eru í boði. Spurningin sem við höfum reynt að svara er: Hvernig getum við mætt þeim þannig að við reynum að forðast skaðann sem gervigreind getur haft í för með sér en á sama tíma gefið þeim verkfæri sem þeim er leyfilegt að nota og mun nýtast þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka