Nú þegar átta dagar eru til jóla er fólk eflaust að velta því fyrir sér hvort það verði hvít eða jól rauð á landinu. Veðurfræðingur segir að eins og staðan sé í dag þá séu líkur á hvítum jólum víðs vegar um land en á suðvestur helmingi landsins sé það tvísýnna.
Eiríkur Örn Jóhannsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að ekki sé mikill áreiðanleiki í líkönunum enda séu spárnar langt fram í tímann.
„Eins og þetta lítur út núna þá gera spárnar ráð fyrir kulda og éljum víða um land í vikunni en eitthvað að snjónum mun taka upp á höfuðborgarsvæðinu um næstu helgi þegar hlýtt loft berst í lok vikunnar. Eftir helgina er svo útlit fyrir éljalofti aftur,“ segir Eiríkur við mbl.is.
Hann segir að ef gengið sé út frá því að nýjasta spáin sé sú réttasta þá líti út fyrir að það verði hvít jól um allt land en ekkert sé fast í hendi með það ennþá.
„Víðast hvar úti á landi eru líkur á hvítum jólum þar sem þar verður kaldara samkvæmt spám en suðurströndin er meira spurningamerki,“ segir Eiríkur.
Hann segir að þegar líði á vikunna verði spárnar nákvæmari hvað jólaveðrið varðar.
„Þá verðum við sjálfsagt ekki alveg jafn loðin í svörum og nú,“ segir veðurfræðingurinn og hlær.