Fleiri en hundrað skjálftar hafa mælst í eldstöðinni Hofsjökli á árinu. Virknin það sem af er desembermánuði er meiri en mælist jafnan á heilu ári. Taka þarf eldstöðina alvarlega, að sögn prófessors í eldfjallafræði.
Stærsti skjálfti ársins til þessa varð föstudaginn 13. desember og mældist 3,3 að stærð.
Raunar er skjálftinn sá stærsti sem orðið hefur í jöklinum frá árinu 2009, eða eins langt og opinber gögn Veðurstofu ná aftur.
Að líkindum er því enn lengra liðið frá jafnmiklum hræringum.
Annar skjálfti, 2,8 að stærð, reið yfir í jöklinum nú síðdegis. Fleiri jarðskjálftar hafa fylgt í kjölfarið en ekki er þeirra allra getið í gröfunum hér að neðan.
Ljóst má því vera að megineldstöðin, ein sú tilkomumesta á landinu, er að vakna til lífsins. Hvað það þýðir er þó alls óvíst, enda hefur ekki gosið þar frá landnámi og jafnvel aðeins fimm sinnum á síðustu tíu þúsund árum.
Hofsjökull er um 1.800 metra hár og rís upp af miðhálendinu, um 35 til 40 kílómetrar að þvermáli. Nokkur stórfljót má rekja til jökulsins, þar á meðal Þjórsá, Hvítá, Blöndu og Héraðsvötn.
Fjallað er um eldstöðina í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar frá árinu 2013. Þar segir að eðli jökulsins hafi lengi dulist mönnum, enda hafi eldvirkninnar ekki orðið vart í árþúsundir.
Það hafi svo ekki verið fyrr en upp úr árinu 1970 sem vísindamenn áttuðu sig á því að undir ísnum leyndist gríðarmikil gosaskja.
„Hofsjökull er ein af þeim eldstöðvum sem hafa ekki sýnt nein sérstök tilþrif í langan tíma. Hann hefur hins vegar allt til að bera til að vera tekinn alvarlega,“ sagði Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is í ágúst. Þá þegar voru skjálftar það sem af er ári orðnir fleiri en á nokkru heilu ári frá upphafi mælinga.
„Það er stór askja undir jöklinum, keilulaga eldfjall, og allt þar í kring bendir til þess að þarna sé eldfjall sem getur látið að sér kveða,“ sagði Páll.
Örfá og örsmá eldgos hafa orðið þar á síðustu 10 þúsund árum, það sýna hraun sem koma undan jöklinum. Út frá jöklinum eru tilkomumiklir sprungusveimar, bæði til norðnorðvesturs og til vestsuðvesturs.
Fylgst hefur verið vel með Hofsjökli síðan árið 1975 þegar fyrstu jarðskjálftamælunum var komið fyrir þar.
Aftur á móti bar varla á neinum skjálftum fyrr en árið 2021. Það staðfestir, að sögn Páls, að skjálftarnir komi ekki fram bara vegna þess að mælitækin nú á 21. öldinni séu betri.
Rannsóknir benda til þess að mjög langt sé síðan einhverjar hreyfingar og hamfarir hafi verið á þessu svæði, eða 10-15 þúsund ár.
„En þegar koma fram svona lífsmörk verða menn að taka það alvarlega, alla vega til að byrja með, og það er full ástæða til að fylgjast vel með þessari eldstöð,“ sagði Páll.