Verktakafyrirtækin Ístak, Eykt og ÍAV keppast um hönnun og byggingu nýrrar Þjóðarhallar sem rísa á í Laugardal.
Forvalið var auglýst í vor og liggja niðurstöður nú fyrir. Að loknu samkeppnisútboði verður gerður verksamningur við eitt teymi um fullnaðarhönnun og byggingu mannvirkisins.
Ráðgert er að höllin verði allt að 19 þúsund fermetrar að stærð og taki 8.600 í sæti og allt að 12 þúsund á tónleikum.
Þetta kemur fram í tilkynningu Reykjavíkurborgar.
Á kynningarfundi Þjóðarhallar ehf. í mars á þessu ári kom fram að áætlað væri að framkvæmdir myndu hefjast 2025 og að þeim myndi ljúka árið 2027 eða í byrjun árs 2028.
Stefnt er að því að HM karla í handbolta fari að hluta til fram á Íslandi árið 2029 og 2031.
Í viljayfirlýsingu sem undirrituð var sumarið 2022 af Katrínu Jakobsdóttur, þáverandi forsætisráðherra, Degi B. Eggertssyni, þáverandi borgarstjóra, og Ásmundi Einari Daðasyni, barna- og mennamálaráðherra, var ráðgert að höllin yrði klár árið 2025. Stefnir nú allt í að framkvæmdir hefjist í fyrsta lagi það ár.
Ekki er tekið fram í tilkynningu borgarinnar hvenær samkeppnisútboðinu lýkur. Aðeins að gerður verði verksamningur við eitt teymi um fullnaðarhönnun og byggingu mannvirkisins.
Teymin sem taka þátt í samkeppnisútboðinu eru eftirfarandi:
Þess ber að geta að Húsdeild ehf. kærði ákvörðun Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna fyrir að hafa hafnað umsókn fyrirtækisins um þátttöku í samkeppnisútboðinu, til kærunefndar útboðsmála, en kærunni var vísað frá í nóvember.
Samkeppnisgögn sem teymin vinna eftir byggja á vinnu framkvæmdanefndar og síðar Þjóðarhallar ehf. frá miðju ári 2022 og síðan með aðkomu Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna.
„Með tilkomu Þjóðarhallar fjölgar æfingatímum barnanna í hverfinu verulega og Reykjavík styrkir sig mjög sem borg sem leggur áherslu á öflugt íþróttastarf og lýðheilsu. Þjóðarhöll verður mikið notað samfélagshús með góða tengingu við almenningssamgöngur og brýnt að höllin rísi hratt og örugglega,“ er haft eftir Einar Þorsteinssyni borgarstjóra, í tilkynningu borgarinnar.
Þá kemur fram að höllin muni rísa í hjarta Laugardals með góðri tengingu við borgarlínu, sem þó hefur ekki orðið að veruleika.
„Notendur verða íþróttafélög, landsliðshópar sérsambanda fyrir æfingar og keppni, skólar í nágrenninu, háskólar fyrir íþróttakennslu og ýmsir viðburðahaldarar. Þá er ætlunin að höllin sé aðgengileg öllum, vettvangur lýðheilsuverkefna og samkomustaður íþróttafólks og almennings með tilheyrandi veitingarekstri sem tengist safnsvæði áhorfenda.“