Þrjár vikur eru liðnar frá því að mennta- og barnamálaráðherra tilkynnti að meðferðarheimilið Blönduhlíð væri formlega opnað, fjórum dögum fyrir alþingiskosningar.
Engin starfsemi er á heimilinu í dag enda hefur Barna- og fjölskyldustofa enn ekki fengið starfsleyfi fyrir Blönduhlíð.
Tilkynning um opnun Blönduhlíðar var gefin út fjórum dögum fyrir alþingiskosningar.
Blaðamönnum var boðið á viðburð og ávörp flutt í tilefni „opnunarinnar“.
Fyrir lá að meðferðarheimilið yrði þó ekki opnað.
„Í dag opnaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, meðferðarheimilið Blönduhlíð, sem staðsett er á Farsældartúni í Mosfellsbæ,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins 26. nóvember.
Í tilkynningu á vef Farsældartúns þann sama dag var einnig greint frá viðburðinum:
„Í dag var tekið stórt skref að því að gera Farsældartún að þjónustukjarna fyrir börn og ungmenni þegar meðferðarheimilið Blönduhlíð var opnað.“
Blönduhlíð situr á svonefndu Farsældartúni þar sem unnið er að hönnun nýs þjónustukjarna fyrir börn og ungmenni. Er markmiðið að byggja upp miðstöð samstarfs lykilstofnana og félagasamtaka sem starfa í þágu farsældar barna.
Eins og fyrr segir hefur heimilið enn ekki verið opnað.
Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna og fjölskyldustofu, kveðst vona að hægt verði að opna heimilið í janúar á næsta ári. Hann vill þó ekki lofa neinu um það.
„Staðan er núna þannig að brunahönnuður er að klára að hanna rýmingaráætlun og brunaúttekt. Þegar það er komið þá getum við sótt um starfsleyfi og fengið starfsleyfi hjá byggingarfulltrúa,“ segir Funi í samtali við mbl.is.
Blönduhlíð verður meðferðarheimili fyrir ungmenni á aldrinum þrettán til átján ára sem glíma við hegðunar- og fíknivanda. Rými verður fyrir fimm skjólstæðinga á sama tíma. Mun heimilið taka við hluta af þeirri starfsemi sem áður var á Stuðlum.
Vinna við stofnun meðferðarheimilisins hófst seint á síðasta ári þegar þörf var á frekari aðgreiningu á milli ungmenna í kjölfar þess að Stuðlar fóru að taka við börnum í afplánun og gæsluvarðhald.
Leigusamningur um húsnæð undir Blönduhlíð var undirritaður í sumar og síðsumars var hafist handa við framkvæmdir á húsnæðinu til þess að það hentaði til þeirrar notkunar sem ætluð var.
Funi segir að Barna- og fjölskyldustofa hafi stefnt að því að opna Blönduhlíð í desember en það hafi ekki gengið eftir. Segir hann skiljanlegt að fólk sé ósátt við að þar sé engin starfsemi enn.
Spurður út í orðalagið í tilkynningu ráðuneytisins, þar sem fullyrt er að meðferðarheimilið hafi verið opnað, segir Funi:
„Það hefði mátt vanda það betur, þannig að við værum ekki í þessari stöðu.“