Hafnarfjarðarbær hefur gert ráð fyrir milljarði króna í greiðslu fyrir knatthúsið Skessuna í fjárhagsáætlun árið 2025. FH skuldar hins vegar tæpar 1.200 milljónir króna í tengslum við byggingu hússins. Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte verðmetur húsið á um 1,5 milljarða króna.
FH hafði um 790 milljónir króna á milli handanna þegar bygging hússins hófst. Heildarkostnaður við húsið endaði hins vegar í rúmlega 1,5 milljarði króna. Getur félagið ekki staðið skil á lántöku vegna byggingar hússins.
Eins og fram kom í gær var fjármálaóreiða í bókhaldi við byggingu Skessunnar. Þá hefur félagið óskað eftir því að Hafnafjarðarbær muni kaupa húsið og taka yfir rekstur þess. Meðal annars kom fram að Jón Rúnar Halldórsson, fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar sá félaginu fyrir stálgrind og dúk í gegnum félag sitt Best hús og Viðar Halldórsson, formaður félagsins, fékk greiðslu fyrir umsjón verksins.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnafjarðarbæjar, segir engan vilja sjá þetta gamlagróna og öfluga félag fara í þrot og segir bæinn viljugan til þess að eignast og taka við rekstri Skessunnar. Hins vegar sé ekki vilji hjá bænum að greiða uppsett verðmat Deloitte fyrir húsið.
„Það er um ár síðan við hófum þessar samningaviðræður. Þá leituðu þeir til okkar sem var kannski svolítið seint ef miðað er við aðstæður og þessar viðræður hafa staðið yfir síðan þá,“ segir Rósa.
Segir hún að í samningaviðræðum hafi komið fram að ýmsar tölur í bókhaldinu voru án skýringa og var það hvatinn að því að gerð var óðháð greining á ráðstöfun fjármuna við framkvæmd hússins.
„Í fyrstu greindi okkur á um hvernig verðmeta ætti Skessuna. Svo koma þarna upp hlutir sem við fáum ekki nægjanlega góðar skýringar á. Hvernig fé hafði farið á milli deilda og annað. En eins og staðan er þá er þetta innanfélagsmál. Við erum ekki orðnir eigendur að húsnæðinu og það er félagsins að útkljá það hvernig fjármunum hefur verið ráðstafað á þessum tíma,“ segir Rósa.
Ákveðið var að byggja Skessuna árið 2018. Hafði FH þá lagt hart að bænum að fá bætta aðstöðu með byggingu knatthúss. Að sögn Rósu fannst bænum það hins vegar of dýrt og þess vegna ákvað félagið sjálft að fara í byggingu þess. Um svipað leyti var verið að klára gerð eignaskiptasamninga við íþróttafélög í bænum. Í takti við það keypti bærinn eignir félagsins, Dverginn, Risann og handboltahúsið og fékk FH andvirðið til þess að byggja Skessuna með leyfi bæjarins.
„Þetta voru um 790 milljónir króna og þeir fengu leyfi til þess að byggja þetta hús sem átti að rúmast innan þessa fjármagnsramma,“ segir Rósa. Annað hefur komið á daginn og fer nærri að kostnaður hafi reynst um 1,5 milljarður króna. Þurfi félagið því að fjármagna sig með lántöku til þess að hægt yrði að klára húsið.
Það var svo fyrir ári síðan sem forsvarsmenn félagsins leituðu til bæjarins með rekstarerfiðleikana.
„Það var líklega tveimur árum of seint,“ segir Rósa.
„Það var ekki beint á áætlun hjá okkur að kaupa íþróttahús, þegar tvö önnur eru í byggingu,“ segir Rósa en framkvæmdir standa yfir á æfingasvæði Hauka á Ásvöllum þar sem verið er að byggja íþróttamannvirki. Eins er verið að byggja reiðhöll fyrir Sörla.
Nú er talað um verðmat á húsinu upp á 1,5 milljarð króna? Eru það tölur sem bærinn mun greiða?
„Nei, það eru ekki tölur sem bærinn getur fallist á. Félagið hafði meira segja enn þá hærri hugmyndir fyrst um sinn en þennan eina og hálfa milljarð,“ segir Rósa.
Félagið talar sjálft um að það gæti verið stutt í samkomulag. Er það rétt?
Já, það gæti alveg verið en það er ekki nærri þessari upphæð.
Hver er sú upphæð?
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 gerum við ráð fyrir varúðartölu upp á milljarð króna. Ef við förum umfram það þá þurfum við að gera viðauka við fjárhagsáætlun.
Er það ekki valkostur að láta félagið sjálft um þetta og ekki hlaupa undir bagga? Er félagið ekki tæknilega gjaldþrota?
„Við erum ekki búin að ná samkomulagi en við erum komin í áttina. Maður sér ekki fyrir sér að félagið verði gjaldþrota. En svo má ekki gleyma því að við erum að eignast þetta hús og ákveðin jafnræðissjónarmið í því enda hefur bærinn einsett sér það að eiga íþróttamannvirki í bænum,“ segir Rósa.
Hvað eru skuldir háar á félaginu vegna þessa?
„Ég tel að félagið þurfi í heildina hátt í 1.200 milljónir kr til þess að losna við allar skuldir í tengslum við byggingu hússins,“ segir Rósa.
Bætir hún við að náist samkomulag muni bærinn gera kröfur og skilyrði um fyrirkomulag við stjórnun félagsins.
Ef miðað er við þann milljarð sem bærinn hefur eyrnamerkt í verkefnið í fjárhagsáætlun árið 2025 mun félagið sitja uppi með um 200 milljónir króna vegna byggingar hússins.
Til að koma í veg fyrir það þyrfti bærinn að samþykkja aukaleg fjárútlát í viðauka við fjárhagsáætlun bæjarins.