Hæstiréttur hefur hafnað kröfu Þorsteins Más Baldvinssonar um dómkvaðningu matsmanns í miskabótamáli gegn Seðlabanka Íslands.
Persónuvernd úrskurðaði á síðasta ári að varðveisla Seðlabankans á persónuupplýsingum um Þorstein hafi ekki samrýmst lögum um persónuvernd.
Um er að ræða gögn sem safnað var við húsleit Seðlabankans hjá Samherja í mars 2012, þar sem Samherji var grunaður um brot á gjaldeyrislögum. Ekkert varð úr þeim málatilbúnaði Seðlabankans.
Aðdragandi málsins er sá að við húsleitina í mars 2012 lagði Seðlabankinn hald á mikið magn af rafrænum gögnum, um sex þúsund gígabæti, sem geymd voru á þremur hörðum diskum.
Þau gögn voru enn í vörslu Seðlabankans vorið 2020, einu og hálfu ári eftir að málinu lauk, en Seðlabankinn afhenti héraðssaksóknara gögnin.
Þorsteinn höfðaði miskabótamál gegn Seðlabankanum þar sem Seðlabankinn hafnaði því að greiða Þorsteini táknræna upphæð vegna brota bankans á persónuverndarlögum.
Þorsteinn krafðist þess að fallist yrði á matsbeiðni sem hann hafði lagt fram í málinu og að dómkvaðning matsmanns næði fram að ganga.
Vildi hann fá dómkvaddan matsmann til þess að skoða, rannsaka og lýsa efni þriggja harðra tölvudiska og gefa skriflegt og rökstutt álit á fjórtán nánar tilgreindum atriðum.
Með þessu vildi hann sanna og lýsa þeirra staðreynd að á diskunum væru persónuupplýsingar um sig.
Hæstiréttur segir í niðurstöðu sinni að Þorsteinn hafi ekki tilgreint nákvæmlega eða lagt fram gögn um sig sem hann telur vera að finna á hörðu diskunum.
Einnig segir Hæstiréttur að Þorsteinn hafi ekki reynt á að nýta sér þau úrræði sem hann hefur samkvæmt lögum til að beina kröfu að héraðssaksóknara um að embættið afhendi honum tölvudiskana eða staðfesti að nánar tilgreind gögn séu á þeim og láta þannig reyna á skyldu embættisins að þessu leyti.
Þá segir Hæstiréttur að jafnvel þó að dómkvaddur matsmaður myndi finna meint persónugögn þá myndi það ekki jafngilda því að gögnin yrðu sjálfkrafa meðal gagna í málinu gegn Seðlabankanum.
Eftir sem áður væri það hlutverk dómara að meta hvort að gögnin innihéldu persónuupplýsingar.
„Slík skoðun og úrlausn dómara getur þó ekki komið til ef þau gögn sem um ræðir eru ekki hluti málsgagna en jafnframt fengi sóknaraðili [Seðlabankinn] þá ekki notið jafnræðis í málinu. Við þessar aðstæður er umbeðin matsgerð varnaraðila [Þorsteins] bersýnilega tilgangslaus til sönnunar á þeim atvikum sem hann byggir málatilbúnað sinn á,“ segir í niðurstöðu Hæstaréttar.
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði Seðlabankanum í vil, Landsréttur úrskurðaði Þorsteini í vil en nú hefur Hæstiréttur kveðið upp dóm í málinu og hafnað kröfu Þorsteins.
Þá er honum gert að greiða Seðlabankanum 800.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti.