Segir formanninn þurfa að íhuga stöðu sína

Skessan, knatthús FH-inga í Hafnarfirði.
Skessan, knatthús FH-inga í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður P. Sigmundsson, formaður frjálsíþróttadeildar FH, telur formann aðalstjórnar FH þurfa að íhuga stöðu sína alvarlega auk annarra í stjórninni. Hann segir stjórnunarhætti og rekstrarfyrirkomulag aðalstjórnar ekki vera eðlilega og kallar eftir því að þeir verði endurskoðaðir.  

Sigurður sér ekki fyrir hvernig Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH, geti starfað lengur þar sem hann beri ábyrgð á þeirri stöðu sem nú sé uppi, en greint var frá því í gær að endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hafi farið yfir framkvæmd úttektar á meðferð fjármuna FH á byggingartíma Skessunnar, knatthúsi félagsins í Kaplakrika, en þar segir að ónákvæmni hafi gætt í bókhaldinu. 

Sorgmædd og orðlaus

Sigurður segir að stjórn frjálsíþróttadeildarinnar hafi komið saman í gær og rætt þá stöðu sem nú er uppi vegna Skessunnar. Segir hann fólk vera sorgmætt og orðlaust yfir stöðunni. 

Hann kveðst hafa séð skýrslu Deloitte fyrir um viku síðan og segir að sér hafi brugðið verulega við að sjá hana þó svo að hann hafi grunað að rekstur félagsins væri óeðlilegur.

Sigurður P. Sigmundsson., formaður Frjálsíþróttadeildar FH.
Sigurður P. Sigmundsson., formaður Frjálsíþróttadeildar FH.

FH skuldar tæplega 1.200 milljónir króna í tengslum við byggingu Skessunnar. Félagið hafði um 790 milljónir króna á milli handanna þegar bygging hússins hófst en heildarkostnaður endaði í rúmlega 1,5 milljarði króna og getur félagið ekki staðið skil á lánagreiðslum vegna byggingar hússins.

Félagið hefur óskað eftir því að Hafnarfjarðarbær kaupi húsið og taki yfir rekstur þess. Hafnarfjarðarbær hefur gert ráð fyrir milljarði króna í greiðslu fyrir Skessuna, en verði af kaupunum standa enn 200 milljónir eftir. 

Aðpurður segir Sigurður að skuldir félagsins muni ekki koma niður á starfsemi frjálsíþróttadeildarinnar. Frjálsíþróttadeildin hafi alltaf haldið rekstri sínum réttu megin við núllið og passað að eyða ekki umfram það sem fé er fyrir. 

Viðvörunarbjöllum farið að hringja

Áður hefur komið fram að Jón Rúnar Halldórsson, fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar FH, sá félaginu fyrir stálgrind og dúk í gegnum félag sitt Best hús og Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH, fékk yfir 70 milljónir króna fyrir að stýra framkvæmdunum, en í yfirlýsingu sem FH sendi frá sér í gær segir að aðkoma Viðars að framkvæmdunum hafi verið eðlileg. 

Sigurður kveðst hins vegar ekki vera sammála því og segir gagnsæi vanta í rekstur félagsins. 

Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH og Jón Rúnar Halldórson, fyrrverandi …
Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH og Jón Rúnar Halldórson, fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar FH. Samsett mynd

Aðspurður segir Sigurður að áður en skýrslan kom út hafi viðvörunarbjöllur farið að hringja varðandi rekstur félagsins. Nefnir hann að félagið hafi átt erfitt með að greiða af lánum og hafi forsvarsmenn þess áður þurft að leita til bæjarstjórnar til að aðstoða við skuldir. 

„Þeir áttu orðið erfitt með að greiða af lánum og bærinn hljóp undir bagga fyrir ári síðan. Þá var gerður samningur um að greiða um 200 milljónir og það var hugsað sem innágreiðsla í væntanleg kaup á Skessunni svo þetta lá fyrir fyrir ári síðan að það var orðið þungt í rekstri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert