Undirbúningur leikskóla Alvotech í fullum gangi

Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alvotech getur ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu um útfærslu á rekstri leikskóla sem greint hefur verið frá að fyrirtækið ætli að láta reisa á komandi árum. Eins og til dæmis hvernig eigi að komast fyrir mönnunarvanda sem margir leikskólar glími við.

Benedikt Stefánsson, forstöðumaður fjárfestatengsla og samskiptasviðs Alvotech, segir undirbúning nú í fullum gangi og að samstarfsaðilarnir muni geta veitt frekari upplýsingar um einstaka þætti verkefnisins eftir því sem þær liggi fyrir.

Í síðustu viku var greint frá því að eign­ar­halds­fé­lagið Flóki In­vest, sem er hluti af Azt­iq sam­stæðunni, stofn­anda og stærsta hlut­hafa Al­votech og fast­eigna­fé­lagið Heim­ar, hefðu undirritað vilja­yf­ir­lýs­ingu um upp­bygg­ingu og starfs­rækslu allt að þriggja nýrra leik­skóla sem eiga að vera komn­ir í rekst­ur á næstu þrem­ur til fimm árum. 

Þá kom fram að staðsetning skólanna yrði ákveðin í samráði við sveitarfélög og hagsmunaaðila.

Mönnunarvandi leysist ekki með fleiri skólum

Ýmsir hafa stigið fram og gagnrýnt þá hugmynd að einkafyrirtæki reki leikskóla, þar á meðal Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara. Í samtali við mbl.is í morgun benti hann á að einkafyrirtækin yrðu í sömu vandræðum og aðrir að fá fagmenntaða kennara til starfa, þar sem skortur væri á þeim.

Mönnunarvandi væri ein helsta ástæðan fyrir löngum biðlistum barna á leikskóla. Sá vandi leystist ekki með fleiri leikskólum. Fjölga þyrfti kennurum áður en kerfið yrði stækkað enn frekar. Þá sagði hann það reynslu kollega erlendis að rekstur einkafyrirtækja á leikskólum leiddi alltaf til félagslegrar mismununar.

Kallaði eftir samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja

Í Kastljósi í gær sagðist Einar Þorsteinsson borgarstjóri hafa hvatt fyrirtækin í borginni til að eiga samtal við borgaryfirvöld og sýna samfélagslega ábyrgð í því verkefni að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það hafi meðal annars leitt af sér samtal við Alvotech.

Einar sagði það samningsmarkmið borgarinnar að helmingur barnanna kæmi úr hverfinu þar sem leikskólinn yrði staðsettur og helmingurinn yrði börn starfsfólks.

Leikskólarnir myndu starfa undir menntastefnu borgarinnar og lúta eftirliti um gæðakerfi og öryggi líkt og aðrir sjálfstætt starfandi leikskólar sem og borgarreknir. Sagði hann einhug um það hjá meirihlutanum að fara þessa leið.

Þá tók Einar undir með Haraldi og sagði það rétt að það vantaði kennara. Það mætti hins vegar ekki gefast upp fyrir þeirri áskorun að brúa bilið þrátt fyrir mönnunarvanda. Það þyrfti nýsköpun og hugrekki til að finna leiðir til að mæta óskum foreldra og þörfum barnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert