Mikilvægi reiðufjár í verslun og þjónustu

Peningar Í lok síðasta mánaðar voru rúmlega 70 milljarðar króna …
Peningar Í lok síðasta mánaðar voru rúmlega 70 milljarðar króna í formi reiðufjár í umferð utan Seðlabankans, það minnsta síðan vorið 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umræða um mikilvægi reiðufjár skýtur upp kollinum reglulega. Þar togast á sjónarmið hagræðis fyrir söluaðila og úrræða í baráttunni við svarta hagkerfið annars vegar og sjónarmið almannahagsmuna og öryggis vegna ytri ógna hins vegar.

Minna reiðufé í umferð

Hlutfall reiðufjár í umferð við verga landsframleiðslu var nokkuð stöðugt frá 1985 og fram að bankahruni haustið 2008, eða öðrum hvorum megin við 1%. Frá hruni og til 2010 tvöfaldaðist það og náði hámarki í rúmum 2,5% 2019. Í árslok 2022 var það 2,1% en 1,8% í lok síðasta árs. Þá voru 9,3% af öllu peningamagni í umferð í formi reiðufjár að virði tæplega 76 milljarða króna og hafði lækkað um 5 milljarða frá fyrra ári.

Í lok síðasta mánaðar voru rúmlega 70 milljarðar króna í formi reiðufjár í umferð utan Seðlabanka Íslands, og hefur ekki verið minna síðan vorið 2019.

Háar upphæðir rekjanlegar

Söluaðilar hafa margir viljað takmarka notkun reiðufjár og talið notkun þess styðja við svarta hagkerfið svokallaða. Í heimsfaraldrinum var talsvert um að þeir neituðu að taka við reiðufé, fyrst og fremst vegna sóttvarnasjónarmiða. Meðal söluaðila sem taka ekki við reiðufé í dag er flugfélagið Icelandair. Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs, segir eftirspurn hafa minnkað hröðum skrefum á undanförnum árum eftir notkun reiðufjár í viðskiptum við flugfélagið. Tekjur standi ekki undir kostnaði og umstangi í kringum örfáar greiðslur með reiðufé og því hafi félagið markvisst dregið úr framboði á þeim valmöguleika. „Við kappkostum að finna aðra jafngóða eða betri kosti fyrir viðskiptavini okkar og bendum til að mynda á Icelandair-kreditkort sem flestar bankastofnanir á Íslandi gefa út og veita margs konar fríðindi og punktasöfnun í Vildarklúbbi Icelandair,“ segir Tómas.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir samtökin ekki hafa talað fyrir því að hætta móttöku reiðufjár. Ýmsir þjóðfélagshópar kunni að reiða sig á reiðufé og vísar hann þar t.d. til eldra fólks. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í dag 19. desember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert