Rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á banaslysinu sem varð í Grindavík 10. janúar er lokið. Lúðvík Pétursson féll í sprungu er hann var við störf í bænum og lést.
Málið er nú komið á lögfræðisvið embættisins sem tekur ákvörðun um hvort ákært verði í málinu.
Þetta staðfesti Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.
Fleiri en einn höfðu réttarstöðu sakbornings í nóvember þegar sagt var frá rannsókninni.
Slysið varð þegar unnið var að því að bjarga húsi í Hópshverfi í Grindavík. Verkið var unnið af verkfræðistofunni Eflu fyrir tilstilli Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ).
Meðal annars er starfsmaður Eflu með réttarstöðu sakbornings en Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri NTÍ, vildi í nóvember ekki tjá sig um það hvort einhver innan stofnunarinnar hefði réttarstöðuna.
Hugmyndin með verkinu var að fylla upp í sprungu sem lá að og við sökkul húss í Vesturhópi með það fyrir sjónum að hægt yrði að bjarga húsinu.
Í skýrslu Vinnueftirlitsins um slysið er sérstaklega gerð athugasemd við að ekki hafi verið framkvæmt áhættumat á aðstæðum, meðal annars á jarðfræðilegum aðstæðum á því svæði þar sem jörð gaf sig þegar Lúðvík var að störfum.
Einn viðmælenda, sem vildi ekki koma fram undir nafni en þekkir til málsatvika, bendir á það að ekkert verk í Grindavík hafi verið unnið að undangengnu áhættumati.