Rannsókn lögreglu á banaslysi hjá ákærusviði

Lögregla hefur lokið við rannsóknina og er málið nú komið …
Lögregla hefur lokið við rannsóknina og er málið nú komið á borð lögfræðisviðs. Samsett mynd/mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á banaslysinu sem varð í Grindavík 10. janúar er lokið. Lúðvík Pétursson féll í sprungu er hann var við störf í bænum og lést. 

Málið er nú komið á lögfræðisvið embættisins sem tekur ákvörðun um hvort ákært verði í málinu. 

Þetta staðfesti Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. 

Fleiri en einn höfðu rétt­ar­stöðu sak­born­ings í nóvember þegar sagt var frá rannsókninni. 

Unnið að því að bjarga húsum 

Slysið varð þegar unnið var að því að bjarga húsi í Hóps­hverfi í Grinda­vík. Verkið var unnið af verk­fræðistof­unni Eflu fyr­ir til­stilli Nátt­úru­ham­fara­trygg­ingar Íslands (NTÍ).

Meðal ann­ars er starfsmaður Eflu með rétt­ar­stöðu sak­born­ings en Hulda Ragn­heiður Árna­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri NTÍ, vildi í nóvember ekki tjá sig um það hvort ein­hver inn­an stofn­un­ar­inn­ar hefði rétt­ar­stöðuna.

Hug­mynd­in með verk­inu var að fylla upp í sprungu sem lá að og við sökkul húss í Vesturhópi með það fyrir sjónum að hægt yrði að bjarga húsinu.

Ekkert áhættumat 

Í skýrslu Vinnu­eft­ir­lits­ins um slysið er sér­stak­lega gerð at­huga­semd við að ekki hafi verið fram­kvæmt áhættumat á aðstæðum, meðal ann­ars á jarðfræðileg­um aðstæðum á því svæði þar sem jörð gaf sig þegar Lúðvík var að störf­um.

Einn viðmæl­enda, sem vildi ekki koma fram und­ir nafni en þekk­ir til máls­at­vika, bend­ir á það að ekk­ert verk í Grinda­vík hafi verið unnið að und­an­gengnu áhættumati.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert