Tók ákvörðunina í gær

Þorgerður ræddi við mbl.is á Bessastöðum í dag.
Þorgerður ræddi við mbl.is á Bessastöðum í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tók endanlega ákvörðun í gær um að hún yrði utanríkisráðherra. Hún hafði einnig velt fyrir sér að fara í fjármálaráðuneytið eða atvinnuvegaráðuneytið.

Viðreisn er með fjóra ráðherra í ríkisstjórn. Hinir þrír ráðherrarnir eru Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. Daði Már er eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem er utan þings.

„Ég ætlaði lengi vel í fjármálaráðuneytið. En við Daði erum búin að vinna mjög vel saman. Hann er mjög sterkur forystumaður í Viðreisn. Þetta er ekki í fyrsta eða annað sinn sem að forystufólk í flokkum utan þings situr í ríkisstjórn. Það vita allir hversu mikill yfirburðamaður hann er á sviði hagfræði, auðlindahagfræði. Hann er prófessor á þessu sviði.

Með dyggum stuðningi þingflokksins þá lagði ég þetta til. Ég leyni því ekki að ég hugsaði mig vel um með atvinnuvegaráðuneytið. Það var ekki fyrr en í gær sem að ég ákvað að fara í utanríkisráðuneytið,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is.

Ánægð með plaggið.
Ánægð með plaggið. mbl.is/Ólafur Árdal

Sem utanríkisráðherra ætlar Þorgerður Katrín að marka skýra stefnu í varnar- og öryggismálum, sem hún segir ríkisstjórn Framsóknar, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks ekki hafa gert.

„Ástæðan fyrir því að ég fór í utanríkisráðuneytið á endanum eru þessir miklu umrótstímar sem eru á alþjóðasviðinu og það að Ísland hafi áfram sterka rödd á því sviði. Við ætlum að marka skýra varnar- og öryggismálastefnu. Samsetning ríkisstjórnarinnar kemur ekki lengur í veg fyrir það að við mótum hér skýra stefnu í varnar- og öryggismálum, við erum alveg ófeimin að tala um það,“ segir hún. 

Erfitt að koma á eftir Þórdísi Kolbrúnu

Í viðtali við mbl.is í dag sagði Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir að gott væri að manneskja með skiln­ing á ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um taki við ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu. 

Þorgerður Katrín segir Þórdísi Kolbrúnu hafa staðið sig mjög vel sem utanríkisráðherra. Hún hafi slegið mikilvægan tón fyrir Íslendinga á alþjóðagrundu.

„Í stóru myndinni þá deilum við sömu sjónarmiðum. Það er mjög erfitt að koma á eftir Þórdísi Kolbrúnu í utanríkisráðuneytið af því að hún hefur staðið sig með prýði. Við eigum örugglega eftir að taka spjall saman um hvernig við getum enn frekar styrkt ásýnd Íslands á alþjóðavettvangi en ekki síður stöðu okkar í þessum umbrotaheimi sem að er núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert