Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það hafi verið forréttindi að fá að vera í ríkisstjórn frá árinu 2013. Hann segir nýja ríkisstjórn taka við góðu búi en segir hana ekki treysta sér til að sýna á spilin nema að takmörkuðu leyti. Hann segir spennandi tíma vera fram undan.
Þetta kemur fram í færslu hans á Facebook.
„Það hafa verið forréttindi að starfa sem ráðherra í ólíkum ríkisstjórnum frá 2013. Tímabilið hefur einkennst af miklum framförum, hagvexti og lífskjarasókn. Við erum laus úr höftum, skuldastaða heimila, fyrirtækja og hins opinbera gjörbreytt, atvinnulífið fjölbreyttara, utanríkisviðskipti frjálsari og bjart framundan,“ skrifar Bjarni.
Hann segir að í stjórnarandstöðu muni Sjálfstæðisflokkurinn halda áherslumálum sínum hátt á lofti og veita ríkisstjórninni nauðsynlegt aðhald.
„Við fyrstu sýn virðast stjórnarflokkarnir ekki treysta sér til að sýna á spilin nema að afar takmörkuðu leyti. Það litla sem er haldbært eru kostnaðarsöm útgjaldamál í almannatryggingakerfinu og áform um stórauknar veiðiheimildir til smábáta. Engu er svarað um það hvaðan þær heimildir eigi að koma,“ skrifar hann.
Hann segir að hvergi sé minnst á stefnu nýrrar ríkisstjórnar í stórum málum og gagnrýnir það að ríkisfjármál séu sögð vera í forgangi á sama tíma og ekki er minnst á „mikilvæga“ sölu Íslandsbanka í stjórnarsáttmálanum.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er sagt að þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram eigi síðar en 2027 um „framhald viðræðna“ um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
„Evrópumálin eru komin á dagskrá, þó ekki strax, og látið fylgja að stjórnarflokkarnir ætli ekki að hafa sérstaka skoðun á hvaða niðurstöðu sóst er eftir í þjóðaratkvæði um það mál. Þetta ber með sér að stjórnin ætlar ekkert að leggja undir í málinu. Það er ekki styrkleikamerki, heldur þvert á móti mikill veikleiki og merki um ótta eða hræðslu við niðurstöðuna.“