Hrikalegt að heyra fréttirnar

Þorgerður Katrín ræddi við blaðamann mbl.is á Bessastöðum.
Þorgerður Katrín ræddi við blaðamann mbl.is á Bessastöðum. mbl.is/Eyþór

„Það var hrikalegt,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, um augnablikið þegar hún heyrði fréttir af ásrásinni sem framin var í Magdeburg í Þýskalandi í fyrradag. Sonur hennar, Gísli Þorgeir Kristjánsson, spilar handbolta með Mag­deburg og býr í borginni. 

Fimm létust og um 200 manns særðust þegar maður ók bifreið  inn í mann­fjöld­a á jóla­markaði í Magdeburg á föstudagskvöld. 

Jólamarkaðurinn alltaf skipað stóran sess

Að sögn Þorgerðar Katrínar býr Gísli Þorgeir í um 400 til 500 metra fjarlægð frá markaðnum. Þorgerður ætlaði að fara til Magdeburg nú um jólin, en vegna alþingiskosninganna þurfti fjölskyldan að hætta við ferðina. Hún segir að þegar hún hafi heimsótt borgina í desember hafi jólamarkaðurinn alltaf skipað stóran sess. 

Það var ekki fyrr en í fyrradag sem Þorgerður Katrín tók endanlega ákvörðun um að verða utanríkisráðherra. Hún hafði velt fyr­ir sér að fara í fjár­málaráðuneytið eða at­vinnu­vegaráðuneytið. Hún segir árásina í fyrradag hafa styrkt sig enn frekar í þessari ákvöðrun. 

„Það var kannski líka það sem fékk mig til þess að styrkja mig enn frekar í því að taka utanríkisráðuneytið. Af því að það þarf að taka á málum sem tengjast öryggi og vörnum. En líka hryðjuverkjum, berjast gegn þeim af festu. Þá þurfa vestærnar lýðræðisþjóðir að sýna samstöðu í þessu,“ segir Þorgerður Katrín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert