Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir tilfinninguna góða að vera búin að taka við lyklunum að forsætisráðuneytinu.
„Það fylgir þessu auðvitað mikil ábyrgð og maður finnur fyrir mikilli ábyrgðartilfinningu þegar maður gengur inn í þetta hús. Ég er auðvitað líka full tilhlökkunar og mjög meðvituð um að við þurfum að standa undir því trausti sem okkur var sýnt í kosningunum 30. nóvember síðastliðinn,“ segir Kristrún við mbl.is.
Spurð um jólahátíðina fram undan segist hún vonast til þess að ná að forgangsraða rétt fjölskyldutíma og vinnu.
„Vonandi næ ég að minnsta kosti einhverjum nokkrum máltíðum,“ segir Kristrún.
Í dag mun hún nýta daginn til þess að funda með starfsfólkinu í ráðuneytinu til þess að fá betri tilfinningu fyrir teyminu, að eigin sögn.
Á morgun verður fyrsti ríkisstjórnarfundur nýrrar ríkisstjórnar.