Suðaustan hvassviðri eða stormur í nótt

Vindaspá Veðurstofunnar klukkan 6 í fyrramálið.
Vindaspá Veðurstofunnar klukkan 6 í fyrramálið. Kort/Veðurstofa Íslands

Í dag er spáð suðvestlægri átt 3-10 m/s en norðvestan átt 13-20 m/s á austanverðu landinu framan af deginum.

Þá verða dálítil él hér og þar en léttir til fyrir austan, frost 0 til 10 stig. Kaldast verður inn til landsins á Norðausturlandi.

Verður vaxandi suðaustanátt og er útlit fyrir að fari að snjóa á suðvesturhorninu seint í kvöld, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Þar segir einnig að það gangi í suðaustan hvassviðri eða storm í nótt. Því fylgi snjókoma og síðar slydda eða rigning og hlýnandi veður.

Gular viðvaranir taka í gildi á milli klukkan 1 og 4 í nótt eftir landshlutum.

Kólnar annað kvöld

Á morgun, Þorláksmessu, snýst í suðvestan hvassviðri eða storm með skúrum. Hiti 4-9 stig en byrjar að kólna annað kvöld og fylgir því él.

Á aðfangadag er spáð suðvestan 13-18 m/s og éljum. Um tíma síðdegis verður samfelld snjókoma eða slydda á sunnan- og vestanverðu landinu en lengst af þurrt norðaustanlands. Hiti um frostmark.

„Á jóladag og annan í jólum verður áframhaldandi útsynningur með éljum, en bjart með köflum norðaustanlands. Hiti um eða undir frostmarki,“ segir í hugleiðingunum.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert