Gular viðvaranir í dag og á morgun

Gular viðvaranir eru víða um land.
Gular viðvaranir eru víða um land. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir vegna suðvestan storms og hríðarveðurs á Faxaflóa og Breiðafirði á morgun, aðfangadag.

Á Faxaflóa tekur gul viðvörun gildi klukkan 20 annað kvöld og gildir til klukkan 12 á jóladag og á Breiðafirði frá klukkan 21 annað kvöld til klukkan 12 á jóladag. Spáð er 15-23 m/s og verður lítið skyggni í dimmum éljum og varasamt ferðaveður.

Á Vestfjörðum tekur gul viðvörun gildi klukkan 18 í kvöld og stendur til miðnættis. Þar verða suðvestan 15-23 m/s með snörpum vindhviðum. Einnig eru líkur á éljum með lélegu skyggni og varasömu ferðaveðri.

Á Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra tekur gul viðvörun gildi um kvöldmatarleyti í kvöld og verður í gildi fram til klukkan 2 í nótt. Þar er spáð 18-25 m/s og vindhviðum yfir 35 m/s.

Gul viðvörun er í gildi á Austurlandi að Glettingi til klukkan 12 í dag og aftur tekur gul viðvörun gildi á þessu svæði klukkan 20 í kvöld og gildir til klukkan 3 í nótt. Þar er spáð 15-23 m/s og með vindhviðum yfir 35 m/s. Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert