Leiðindaveður yfir jólahátíðina

Kort sem sýnir vindhraða að morgni jóladags (25. desember), fjólubláir …
Kort sem sýnir vindhraða að morgni jóladags (25. desember), fjólubláir og beikir litir sýna hvar verður hvassast, en grænir litir það svæði þar sem vindur verður minnstur. Kort/Veðurstofa Íslands

Spáð er leiðindaveðri yfir jólahátíðina og strax í kvöld tekur veður að versna norðan- og austanlands.

Veðurstofa Íslands segir í tilkynningu á vef sínum að í kvöld og fram á nótt verði hvassviðri eða stormur norðan- og austanlands. Gular viðvaranir vegna suðvestan hvassviðris eða storms taka gildi í kvöld (Þorláksmessu) á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi. Vindhviður geta staðbundið farið yfir 35 m/s.

Gular viðvaranir vegna suðvestan storms og hríðar taka svo gildi á kvöldi aðfangadags og á jóladag á vesturhelmingi landsins. Þar má reikna með hvössum éljahryðjum og í éljunum megi búast við lélegu skyggni og að aðstæður til ferðalaga verði erfiðar. Færð getur auðveldlega spillst og sér í lagi þegar snjómokstur er af skornum skammti.

Á jóladag verða suðvestan 15-25 m/s með dimmum éljum á vesturhelmingi landsins en úrkomulítið verður á Norðaustur- og Austurlandi.

Á öðrum degi jóla er gert ráð fyrir suðvestan og sunnan 10-18 m/s með snjókomu eða slyddu með köflum, en þurrt verður að kalla um landið norðanvert.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert