Nýverið var gefin út skýrsla um ástand alþjóðlega póstgeirans og fékk Íslandspóstur 66,8 stig sem setur Póstinn í PDL 8 (PDL, Postal Development Level) sem er talsverð bæting á milli ára en í fyrra var PDL-skorið 4.
Í tilkynningu frá Póstinum kemur fram að líklega megi rekja hluta þessarar hækkunar til breytinga á aðferðafræði við að meta stöðu landa en „einnig til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á vinnslu sendinga hjá Póstinum, innviðauppbyggingar og hagræðingaraðgerða.“
Segir einnig í tilkynningunni að þegar niðurstöður síðasta árs voru skoðaðar nánar hafi komið í ljós að ákveðnir þættir hefðu skekkt niðurstöður skýrslunnar.
Samkvæmt hinni nýju mælingu er Pósturinn nú í flokki með þeim fjölmörgu löndum sem veita fyrsta flokks póstþjónustu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
„Við erum afskaplega stolt af árangri Póstsins í alþjóðapóstsamfélaginu og við kappkostum á hverjum degi að gera okkar allra besta og nýta gögn til þess að auka hraða og gæði. Fjárfestingar okkar í innviðum eru að skila sér í auknum hraða og fjölgun afhendingarleiða. En við erum hvergi nærri hætt og munum halda áfram innviðauppbyggingu á næstu árum til að fjölga snertiflötum við viðskiptavini okkar um allt land“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins.
Mældir eru fjórir þættir. Í fyrsta lagi hversu vel landið er tengt alþjóðlega, í öðru lagi hraðagæði og fyrirsjáanleiki afhendingartíma, í þriðja lagi samkeppnishæfni landa út frá mikilvægasta viðskiptahluta þess sem og þéttleika innviða og í fjórða lagi aðlögunarhæfni póststjórna eftir efnahagslegum þáttum, félagslegum þáttum, tæknilegum þáttum og umhverfisáföllum.
Í tilkynningunni kemur fram að í fyrsta þætti, sem nær til hversu vel landið sé tengt öðrum löndum hafi Pósturinn hækkað úr 7,27 stigum í 59,3 stig og er það mestmegnis vegna þess að Ísland var vanmetið í þessum flokki. Ekki var tekið réttilega tillit til eyríkja eins og Íslands sem senda póst til flestra landa heims í samvinnu við önnur lönd. Þetta hefur nú verið lagað.
Í öðrum þætti sem sneri um áreiðanleika póstsendinga voru hraðagæði og fyrirsjáanleiki afhendingartíma tekin fyrir. Þar hækkaði Pósturinn úr 8,02 stigum í 87,6 stig og eru ástæður þess aðallega tvær. Í mælingu fyrra árs voru hraðagæði vanmetin hjá Íslandi og öðrum eyríkjum vegna tæknilegrar uppsetningar en einnig vegna breytinga á vinnslu sendinga hjá Póstinum, en í tilkynningunni segir að þær breytingar hafi stóraukið afhendingarhraða hjá Póstinum á erlendum sendingum til landsins.
Í þriðja þætti er samkeppnishæfni landa metin út frá mikilvægasta viðskiptahluta landanna sem og þéttleika innviða. Í tilkynningunni kemur fram að Pósturinn hafi þar lækkað á milli ára úr 23,85 stigum í 20,7 stig. Segir að Pósturinn eigi eftir að fá betri skýringar á því hvers vegna lækkunin hafi orðið, en samkvæmt upplýsingum frá UPU er það metið sem svo að allt yfir 20 sé gott. Þess má geta að 112 lönd skora undir 20 og einungis 62 lönd skora yfir 20.
Fjórði og síðasti þátturinn mælir þrautseigju fyrirtækja. Pósturinn hækkaði þar úr 66,65 í 85,5 stig, og segir í tilkynningunni að það sé eðlilegt í ljósi þeirra hagræðingaraðgerða sem ráðist hefur verið í á síðustu árum vegna minnkandi bréfamagns í umferð, sem hafi haft jákvæð áhrif á reksturinn. Þá fékk Ísland aukastig fyrir sjálfbærni og stigvaxandi árangur af henni.