Aukaþáttur af Spursmálum verður á dagskrá á mbl.is klukkan 14:00 næstkomandi föstudag, þriðja í jólum. Tilefnið er myndun nýrrar ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Von er á góðum gestum.
Þannig hefur Bjarni Benediktsson, fyrrum forsætisráðherra boðað komu sína en þá standa einnig vonir til þess að einn eða fleiri leiðtogar nýrrar ríkisstjórnar verði til viðtals einnig.
Þátturinn milli jóla og nýárs verður sá 56. það sem af er ári, séu leiðtogakappræður fyrir alþingiskosningarnar í byrjun vetrar taldar með.
Mikill fjöldi góðra gesta hefur mætt á vettvang og þar risu án efa hæst viðtöl við forsetaframbjóðendur og leiðtoga þeirra stjórnmálaflokka sem buðu fram í fyrrnefndum kosningum.
Spursmál þakka áhorfendum og áheyrendum samfylgdina á árinu sem er að líða og einnig þeim fjölmörgu viðmælendum sem lífguðu upp á þjóðfélagsumræðuna með þátttöku sinni í Spursmálum.
Það stefnir í spennandi nýtt ár og þar verða Spursmál sem fyrr, spennandi, upplýsandi og skemmtilegur vettvangur fyrir alla þá sem láta sig varða samfélagsmál í víðum skilningi.
Hér að neðan má sjá nýjasta þátt Spursmála frá liðnum föstudegi. Þar mættu til viðtals þeir Aðalgeir Ásvaldsson og Jóhannes Þór Skúlason, sem ræddu fréttir vikunnar og þær Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Kristín Dýrfjörð sem ræddu leikskólamál og nýjustu vendingar á því sviði.