„Umferðin er greinilega að þyngjast núna þegar líður að hádegi. Morgunumferðin var róleg enda hafa margir tekið sér frí frá vinnu í dag. Ef allir dagar væru svona þá væri gaman að lifa.“
Þetta segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Hann segir að ekið hafi verið á hjólreiðarmann í austurbænum í morgun en það hafi reynst minniháttar.
„Ég er á ferðinni núna og umferðin er hægt og bítandi að þyngjast. Hér á höfuðborgarsvæðinu er færðin ágæt en það er mikill vatnselgur á götunum og fólk ætti að vara sig á þeim,“ segir Árni.
Veðurspáin fyrir morgundaginn á höfuðborgarsvæðinu er ekki góð og segir Árni að lögreglan sé undirbúin undir það. Gul veðurviðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu rétt eftir að jólahátíðin gengur í garð en spáð er hvassviðri með dimmum éljum, lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.
„Ef það er eitthvað kvöld sem óveður hentar vel þá er það aðfangadagskvöld. Þá er best að vera heima og njóta matarins og gjafanna,“ segir Árni.
Viðbúið er að margir gæði sér á skötu á Þorláksmessu hvort sem það er í heimahúsum eða veitingahúsum og brýnir Árni fyrir fólki að þeir sem ætli að fá sé bjór eða vín með skötunni láti það ógert að keyra eftir að hafa neytt áfengis.
„Við óskum þess að þeir sem ætla að fá sér skötu láti áfengið vera ef þeir ætla að keyra,“ segir Árni.