Í vinnunni á aðfangadagskvöldi í 25 ár

Ástbjörn Egilsson var lengi kirkjuhaldari og framkvæmdastjóri sóknarnefndar.
Ástbjörn Egilsson var lengi kirkjuhaldari og framkvæmdastjóri sóknarnefndar. mbl.is/Eyþór

Þegar kirkjuklukkurnar hringja inn jólin klukkan sex í dag, aðfangadag, er Ástbjörn Egilsson í vinnunni í Dómkirkjunni í Reykjavík eins og vanalega á þessum tíma á hverju ári frá 1999. „Það er yndislegt að vera í kirkjunni á aðfangadag, eins og reyndar alla daga,“ segir hann. „Þetta er gott samfélag og verður enn betra á stórhátíðum eins og jólum og páskum.“

Kirkjuhaldari Dómkirkjunnar fer með peningamálin, undirbýr bókhaldið fyrir bókara, sér um að viðhaldi sé sinnt og er í raun framkvæmdastjóri. Ástbjörn var kirkjuhaldari og framkvæmdastjóri sóknarnefndar frá 1999 til 2014 og hefur síðan verið með annan fótinn í kirkjunni.

„Ég hleyp til þegar þörf er á,“ segir hann. Bætir við að á árum áður hafi menn með ítök í kirkjunni, gjarnan kaupmenn eða embættismenn, verið fengnir til að sjá um kirkjuhaldið.

Starf kirkjuhaldara felst meðal annars í því að undirbúa kirkjuna fyrir messu og sjá til þess með prestunum að umgjörðin sé rétt hverju sinni, setja upp sálmanúmer og vera til staðar. Hann tekur á móti gestum og er jafnframt í hlutverki meðhjálpara. „Ég sit fremst, stend upp og sest á réttum tíma.“ Ástbjörn segir að aftansöngurinn á aðfangadag gangi jafnan snurðulaust fyrir sig enda hefðin í fyrirrúmi. „Vinnan er ósköp auðveld á þessum degi.“

Kirkjan samastaður

Ástbjörn hefur verið ekkill í rúm fjögur ár, en Elín Sæmundsdóttir eiginkona hans var gjarnan á meðal gesta í Dómkirkjunni á aðfangadag. Agla dóttir þeirra og Haraldur Örn Jónsson maður hennar hafa lengi sungið í Dómkórnum. „Við fórum oft í mat til þeirra eftir hátíðarmessuna og svo fór ég aftur að vinna vegna messunnar sem hófst á miðnætti,“ segir hann. Bætir við að fyrstu árin hafi verið fjórar messur á aðfangadag. Þýsk messa klukkan tvö, dönsk klukkan fjögur, aftansöngurinn og miðnæturmessan. Nú eru danska messan og aftansöngurinn þennan dag og helgistund kl. 23.30. „Ef mikið slabb var á Þorláksmessu þurfti ég að mæta fyrir hádegi á aðfangadag og skúra. Þá var dagurinn langur í kirkjunni en mér leið alltaf vel.“

Eftir að hafa verið sendill hjá dagblaðinu Vísi fór Ástbjörn í prentnám og starfaði í um 15 ár sem prentari. „Það var skemmtilegt starf og ég var einn af þeim fyrstu sem fóru yfir í offsetprent í Kassagerðinni.“ Síðan tóku hjónin að sér rekstur matvöruverslana í Reykjavík og Grindavík í samtals um 13 ár. Svo ráku þau fataverslun í Reykjavík og Ástbjörn var framkvæmdastjóri Gamla miðbæjarins og sölustjóri hjá Ísspori áður en hann réðst til Dómkirkjunnar. „Ég hef komið víða við en kirkjan er minn samastaður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert