Óvissustig víða á vegum

Ökumenn eru hvattir til að kynna sér aðstæður vel áður …
Ökumenn eru hvattir til að kynna sér aðstæður vel áður en lagt er af stað og meðan á ferðalagi stendur. mbl.is/Árni Sæberg

Óvissustig er víða á vegum landsins vegna veðurs og gætu vegir því lokast með stuttum fyrirvara. Hálka eða hálkublettir eru á flestum leiðum.

Á vef Vegagerðarinnar eru ökumenn hvattir til að kynna sér aðstæður vel áður en lagt er af stað og meðan á ferðalagi stendur.

Veðurstofan hefur gefið út gular og appelsínugular viðvaranir vegna veðurs víða um landið í kvöld og í nótt.

Á Vesturlandi gekk í gildi óvissustig á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Fróðárheiði, Vatnaleið og á norðanverðu Snæfellsnesi fyrr í dag. Þá tekur í gildi óvissustig klukkan 19 í Svínadal.

Á Vestfjörðum gengur í gildi óvissustig á Hálfdáni, Þröskuldum, Steingrímsfjarðarheiði, Gemlufallsheiði, Mikladal, Kleifaheiði og Klettshálsi klukkan 18. Óvissustig er í Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu og þá er Dynjandisheiði ófær.

Á Norðurlandi gengur í gildi óvissustig á Siglufjarðarvegi, Þverárfjalli og Vatnsskarði klukkan 21. Búast má við að færð spillist á Öxnadalsheiði eftir því sem líður á kvöldið og nóttina.

Á Austurlandi er ófært um Breiðdalsheiði og Öxi og á Suðurlandi er flughált á Skálholtsvegi, Þjórsárdalsvegi og Bræðratunguvegi. Búast má við að færð spillist á vegum í kvöld og í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert