Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjórum útköllum vegna umferðaróhappa á milli klukkan 5 í morgun til 17 í dag. Í einu tilviki var einstaklingur fluttur á bráðamóttöku.
Krapi, hálka eða hálkublettir eru víða og Veðurstofan hefur gefið út gular og appelsínugular viðvaranir vegna veðurs víða um landið í kvöld og í nótt. Ökumenn eru hvattir til að kynna sér aðstæður vel áður en lagt er af stað og meðan á ferðalagi stendur.
Í dagbók lögreglu kemur fram að í Mosfellsbæ barst tilkynning um umferðaróhapp þar sem urðu minni háttar meiðsli. Einn einstaklingur var fluttur á bráðamóttöku til frekari skoðunar.
Þá bárust tilkynningar um óhöpp í Laugardalnum, Hlíðunum og Hafnarfirði. Þar urðu eignartjón en ekki slys á fólki.