Í hjarta Keflavíkur á Hótel Keflavík má nú finna einstaka lúxus heilsulind sem býður meðal annars upp á snjóherbergi, froðuherbergi, baðlaugar, lúxusbar, veitingastað og vafalaust einn stærsta Versace barhöfuð landsins.
KEF Spa & Fitness heitir staðurinn og hann opnaði 22. október.
„Þetta er alls ekki bara að fara í spa á hóteli, heldur eitthvað sem þú hefur ekki séð áður. Hvað sem fólki finnst þá er þetta allavega öðruvísi og við förum aðra leið en gert er annars staðar í heiminum,“ segir Steinþór Jónsson, eigandi Hótel Keflavík, en hann tók á móti mbl.is og sýndi blaðamanni herlegheitin.
Og það er vissulega rétt hjá Steinþóri að blaðamaður hafði aldrei séð annað eins áður.
„Núna erum við að stíga langstærsta skrefið í sögu fyrirtækisins. Þessar framkvæmdir hafa tekið 18 mánuði, en við pabbi byggðum hótelið á aðeins fjórum mánuðum og tveimur dögum,“ segir Steinþór.
KEF Spa stóreykur afþreyingu á Suðurnesjum og er hannað fyrir heimamenn að sögn Steinþórs. Hann segir hins vegar að heilsulindin sé einstök og einnig fyrir ferðamenn og að enginn Íslendingur eigi að láta það fram hjá sér fara.
„Það er enginn saumaklúbbur sem á ekki að vera búinn að koma hingað eftir eitt ár. Þetta er staður fyrir gæsanir, steggjanir, fyrir pör sem vilja gera vel við sig og svo ætlum við að bæta við að ná almennum ferðamanni enda vel staðsett rétt við alþjóðaflugvöllinn,“ segir Steinþór.
KEF Restaurant er með vinsælustu veitingastöðunum í Reykjanesbæ og hann verður hluti af KEF Spa. Sérstakur veitingasalur með sér veitingaseðli verður í heilsulindinni og fólk getur sest þar að snæðingi eða farið upp í glerskála hótelsins.
Steinþór segir að svokallaður lúxusbar sé í heilsulindinni sem sé flottasti bar hótelsins, en alls eru fjórir barir á Hótel Keflavík.
Við skoðun á heilsulindinni er enginn vafi á því að hér er um að ræða eitthvað sem ekki fyrirfinnst annars staðar á landinu.
„Það er út af því að ég tel að ef við gerum hlutina aðeins betur en væntingarnar standa til þá færðu fólkið aftur, aftur og aftur,“ segir Steinþór og nefnir að grunnurinn að velgengni hótelsins – sem fagnaði fyrr á árinu 38 ára afmæli – sé sá að heimamenn komi reglulega í mat og hótelgestir sem þekkja Hótel Keflavík komi ávallt aftur.
Hversu lengi varstu með þá hugmynd í maganum að búa til heilsulind?
„Ég held að allir sem eru í hótelrekstri hugsi um að gera eitthvað spa en KEF Spa & Fitness er eitthvað allt annað. Þannig sú hugmynd þróaðist í raun bara með þessu á framkvæmdatímanum,“ segir Steinþór.
Þegar komið er í heilsulindina tekur á móti manni skilti þar sem segir: „Listin að njóta.“
Steinþór segir að þetta sé í raun mikið meira heldur en líkamsrækt og heilsulind. Heimamenn geta gerst meðlimir í einkaklúbb og keypt áskriftarleiðir bæði í líkamsræktina og KEF Spa í heild.
„Það er svo mikið meira hægt að gera heldur en að fara í heitan pott og gufu. Margir af þeim sem eru orðnir fastagestir eru að koma til að njóta heldur en akkúrat að fara í gufu, líkamsrækt eða spa. Þau eru að koma til að líða vel – fá Versace slopp fyrir þá sem vilja – og bara njóta lífsins,“ segir Steinþór.
Á meðan Steinþór sýndi blaðamanni heilsulindina voru gestir í heilsulindinni sem blaðamaður fékk að ónáða.
Þetta voru tvær vinkonur sem voru í fyrsta sinn á staðnum og þær sögðu að þetta væri nánast „aðeins of fínt.“ Þær voru búnar að prófa froðuherbergið og snjóherbergið og þær sögðu klefana vera magnaða.
Hvað finnst ykkur best við þetta?
„Ég held að það sé lýsingin og hvað þetta er hlýlegt,“ svaraði ein þeirra og þá bætti hin við:
„Líka hvað það er margt í boði. Það er ekkert allt sem hentar öllum. Þetta er svona afþreying.“
Það sem er augljóst þegar maður mætir á KEF Spa & Fitness er að Steinþóri finnst Versace vera gæðavörumerki.
Versace-vörur eru til sölu í KEF Shop, gestir geta fengið Versace-sloppa, flísarnar á gólfinu og veggjunum eru framleiddar af Versace og svo er risavaxið höfuð Medúsa fyrir ofan barinn, en það er einkennismerki Versace.
Steinþór segir sem dæmi að flísarnar séu sterkbyggðar og muni duga í áratugi. Það að þær séu framleiddar af Versace sé bara bónus. Hann velur vörumerkið fyrst og fremst því að honum finnst gæðin mikil.
Þegar gengið er inn á vatnssvæðið má sjá heita potta, kalda potta, fótalaugar, hvíldarherbergi, infarauða saunu, venjulega saunu, 18 manna heitan pott og snjóherbergi
„Þetta er fyrsta snjóherbergi á landinu og eini klefinn af þessu kalíberi sem við vitum um. Í loftinu er mynd tekin af Ozzo af íshelli og hérna snjóar í gegnum gat,“ segir Steinþór er hann labbaði inn í snjóherbergið. Veggirnir eru stuðlaberg og þá er hægt að horfa á norðurljós í gegnum tvo litla glugga í loftinu.
Hvernig kom þetta til?
„Ég hef aldrei séð – af því ég hannaði þetta nú sjálfur – snjóherbergi áður og ég hef aldrei séð froðubað heldur. Ég setti líka sturtu sem hægt er að virkja í heita pottinum, sem ég sýni þér á eftir,“ segir hann og sýndi blaðamanni svo sturtuna sem er í allt að 20 manna heitum potti.
Hann segir að vel hafi gengið frá því að heilsulindin opnaði og hefur oft verið fullbókað um helgar. Mesti fjöldinn á sama tíma í heilsulindinni var um 100 manns og þá var enn rúmt um, að hans sögn.
„Það er enginn maður með mönnum nema að bjóða makanum hingað í alvöru „high-end“ lúxus,“ segir Steinþór. „Við bjóðum landsmenn alla velkomna til okkar alla daga ársins.“