Nokkrum messum aflýst

Skálholtsdómskirkja var á meðal þeirra sem þurfti að fella niður …
Skálholtsdómskirkja var á meðal þeirra sem þurfti að fella niður messur í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Veðrið hefur haft töluverð áhrif á kirkjuhald þessi jólin en aflýsa þurfti nokkrum messum á miðnætti í gær og í dag. 

Heimir Hannesson, samskiptastjóri Biskupsstofu, segir í samtali við mbl.is að miðnæturmessum í Oddakirkju, Tálknafjarðarkirkju og Bíldudalskirkju hafi verið aflýst í gær vegna veðurs. 

Þá segir hann að aflýsa hafi þurft nokkrum messum í dag sökum veðurs og nefnir til dæmis þær messur sem áttu að vera í Miðdalskirkju, Skálholtsdómskirkju, Setbergskirkju og Þingvallakirkju. 

Fólk hvatt til að fara varlega

Minna er um messur á morgun, annan í jólum, en Heimir segir að vonast sé til þess að hægt verði að halda fyrirhugaðar messur. 

„Við hvetjum auðvitað fólk eins og alla aðra daga að fara varlega og skoða veðurspár ef það ætlar sér að vera viðstatt helgihald í dag, að fylgjast með á Facebook og á heimasíðum kirknanna og athuga hvort einhverjar breytingar hafi orðið á,“ segir Heimir. 

Gular- og appelsínugular veðurviðvaranir

Á vef Veðurstofunnar segir að ekkert ferðaveður sé í dag en gular- og appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi á sunnan- og vestanverðu landinu. 

Appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi á Suðurlandi, Breiðafirði og við Faxaflóa til klukkan 18 þegar að gular veðurviðvaranir taka við og verða í gildi þar til í fyrramálið. 

Þegar eru gular viðvaranir í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert