Fjórir félagar, sem deila allir ástríðu á landinu Georgíu, hófu fyrir nokkrum árum að flytja inn vín af ýmsu tagi frá landinu, en þeir horfa á þetta sem part af því að efla tengsl landanna. Þá vilja þeir leyfa Íslendingum að kynnast þessum menningararfi Georgíu, en víngerð í landinu er ein sú elsta í heiminum og er aðferðin sem notuð er við bruggunina á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).
„Fyrirtækið kemur í rauninni bara til af áhuga okkar af Georgíu. Við höfum allir ferðast þangað og kynnst þessum magnaða vínkúltúr, sem er sá elsti í sögu mannkynsins,“ segir Hrannar Björn Arnarsson í samtali við mbl.is.
Hrannar, sem er ræðismaður Georgíu á Íslandi og fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra, er einn fjórmenninganna. Hann segir þá flesta þekkjast úr æsku en sumir þekkjast í gegnum vinatengsl sem hafa myndast seinna á ævinni. „Þannig þetta er bara góður vinahópur sem stendur að þessu“.
Tengingar þeirra hafa í gegnum tíðina ekki síður náð í gegnum pólitík og þekkir almenningur þá líklega frekar af því sviði en af því að standa í innflutningi á áfengi.
Auk Hrannars eru það þeir Helgi Hjörvar, fyrrverandi alþingismaður, Steingrímur Ólafsson almannatengill og Sigurður Már Jóhannesson, sem jafnframt er framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem standa á bak við Georgíuvín ehf.
Víngerð í Georgíu er talin vera um 8.000 ára gömul, en notast er við leirkrukkur sem ganga undir nafninu kvevri við bruggunina.
„Þegar við uppgötvuðum að það var enginn að flytja þetta inn til Íslands þá ákváðum við að skella okkur í að prufa og við höfum verið að fikra okkur áfram í þessu síðustu þrjú árin,“ segir hann.
Hrannar segir að þeir hafi fengið góðar viðtökur hér á landi og að þeir vilji kynna betur þessa sérstöku víngerð fyrir landi og þjóð.
Hafa eigendurnir verið duglegir við að viðhalda tengslum við Georgíu sjálfir, en þangað hafa þeir oftar en einu sinni ferðast saman, ýmist í tengslum við fyrirtækið eða bara til að njóta menningarinnar og landsins.
Eins og áður kemur fram er Hrannar ræðismaður Georgíu og segir hann að það sé hluti af því að efla tengsl landanna að flytja inn einn helsta menningararf þeirra.
„Vínið er sannkallaður menningararfur landsins, þeir eru búnir að viðhalda þessari víngerð sinni í mörg þúsund ár og er hún vernduð á skrá UNESCO um menningarminjar. Allir sem ferðast til Georgíu finna hversu mikilvægt þetta er landinu og þjóðinni, en þeir tala um þetta eins og við tölum um Íslendingasögurnar eða náttúruna okkar.“
Vínin sem fyrirtækið flytur inn fást í vínbúðum ÁTVR, en Hrannar segir viðtökur á víninu hafa verið miklu betri en þeir bjuggust við, og að þeir séu smátt og smátt að breikka úrvalið og fjölga tegundum.
Nú eru fluttar inn til landsins vörur frá Georgíu á borð við léttvín, sterkt vín svo og freyðivín. „Þeir eru auðvitað með megnið af þessum víntegundum og við stefnum á að bjóða upp á þetta allt. Ef viðtökurnar halda áfram með þessum hætti þá verður það að veruleika.“