Birta Hannesdóttir
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort það þurfi að takmarka aðgang að heitu vatni vegna mikillar kuldaspár sem er um helgina.
Þetta segir Silja Ingólfsdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við mbl.is.
Segir hún að fylgst sé með stöðu mála á hverjum degi og ef spáin rætist og kuldinn varir í langan tíma þurfi að grípa til ráðstafanna en að það sé aðeins gert í ýtrustu neyð.
Líkt og greint var frá í gær er spáð töluverðum kulda á höfuðborgarsvæðinu um helgina þar sem frost getur farið niður í 13 til 18 stig.
Aðspurð segir Silja það fara eftir notkun þegar horft er til þess hvenær það er farið að skerða aðgang að heitu vatni og að heimilin séu alltaf forgangsröðuð.
Þá vill hún hvetja fólk til að fara vel með heita vatnið og bendir á heimasíðu Veitna þar sem er að finna hollráð um heitavatnsnotkun.