Íbúar í sveitarfélaginu Árborg eru hvattir til þess að fara sparlega með heita vatnið vegna kuldatíðar sem er fram undan.
Er þetta gert til þess að draga úr líkum á þjónustuskerðingum með því að minnka álag á veitukerfið, að því er fram kemur í tilkynningu frá Selfossveitum.
„Fólk getur sparað heitt vatn og þar með kyndikostnað sinn með því að gæta að því að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á,“ segir í tilkynningunni.
Einnig kemur fram að máli skipti að ofnar séu rétt stilltir og séu ekki byrgðir gluggatjöldum eða húsgögnum.
„Þá eru heitir pottar við heimili talsvert þurftafrekir á vatn og gott að hafa í huga að fara sparlega með neysluvatn eins og við uppvask og böð.“