Segir bókun 35 ekki hafa áhrif á stjórnarsamstarf

Eyjólfur Ármannsson, verðandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Eyjólfur Ármannsson, verðandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Eyþór

Eyjólfur Ármannsson, nýr samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, sem áður hefur lýst andstöðu sinni við að bókun 35 sé tekin inn í íslenska löggjöf, segir að hann muni ekki láta það hafa áhrif á stjórnarsamstarfið þó að bókun 35 verði samþykkt.

Hann segist ekki búinn að gera það upp við sig hvort hann muni sitja hjá við atkvæðagreiðsluna þegar þar að kemur en segir óumflýjanlegt í stjórnarsamstarfi að gera málamiðlanir og sjálfur sé hann t.a.m. ánægður með að strandveiðidögum verði fjölgað í 48 samkvæmt samkomulagi í stjórnarsáttmála.

„Ég mun ekki hætta að styðja þessa ríkisstjórn út af bókun 35. Við erum að fá gríðarlega mikilvæg mál eins og 48 daga strandveiðitímabil,“ segir Eyjólfur.

Standi framar þjóðþinginu 

Bókun 35 gengur í grunninn út á það að ef EES-samningurinn og önnur íslensk lög stangast á, þá gildi EES-löggjöfin nema skýrt sé tekið fram af Alþingi að svo sé ekki.

Hugmyndin með bókun 35 er sú að þjóðþing geti ekki tekið fyrir réttindi einstaklinga og fyrirtækja sem tryggð eru í EES-samningnum með annarri löggjöf.

Að sögn Eyjólfs veit hann ekki til þess hvort rætt hafi verið um bókun 35 í samningaviðræðum stjórnarflokkanna. Formennirnir geti einir svarað því.

Bókun 35 ekki stóra málið 

„Það hefur verið vitað um þetta vandamál sem bókun 35 í 30 ár í EES-samningnum vegna skýrrar kröfu samningsins um einsleitni reglna á innri markaði EES. Þessi vandi var talinn leystur fyrir 30 árum síðan með 3. GR. EES- laga um að íslensk lög skyldu túlkuð til samræmis við innleidd EES-lög. Það var skilningur manna þá og margra enn í dag.
Ég hef vísað til 30 ára reynslu okkar af EES-samningnum og ég hef talið það lögfræðilega ekki ganga upp án stjórnarskrárbreytingar að ákveðin lög gangi framar öðrum vegna uppruna þeirra,“ segir Eyjólfur.

Hann segir hins vegar að bókun 35 sé ekki stóra málið þegar kemur að utanríkismálum, heldur verði stóra málið atkvæðagreiðsla um að fara í aðildarviðræður við ESB.

Kemur til greina að sitja hjá 

Gæti komið til greina að sitja hjá þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þessa bókun?

„Það gæti alveg komið til greina. Þetta er ekkert stórmál þannig lagað. En ég er ekki að fara að slíta ríkisstjórn vegna þessa. Lögfræðileg skoðun mín er sú að við höfum verið í 30 ár í EES án þess að taka upp bókun 35 og það hefur gengið vel,“ segir Eyjólfur.

Bætir hann því við að hann muni taka á þessu máli þegar þar að kemur.

„En þetta er ekkert stórmál og það sem mér finnst skipta mestu fyrir mitt kjördæmi er að það verða 48 dagar í strandveiði. Það er stóra málið,“ segir Eyjólfur.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert