Ummæli Hjálmars óvægin en innan marka

Í eldsvoðanum lést maður sem búið hafði í húsinu.
Í eldsvoðanum lést maður sem búið hafði í húsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað blaðamanninn Hjálmar Friðriksson af stefnu starfsmannaleigunnar Elju og eigenda hennar vegna ummæla sem hann lét falla í tengslum við andlát sextugs Pólverja í bruna í fyrra.

Málin voru rekin í sitthvoru lagi, en samanlagt var 15 milljóna krafist í skaðabætur. 

„Nútíma þrælahaldarar“

16. október í fyrra kom upp eldur að Funahöfða 7 í Reykjavík. Húsnæðið var á þeim tíma að mestu í eigu tveggja félaga sem voru í eigu eigenda Elju. Fasteignin hafði verið skráð sem skrifstofu- og iðnaðarhúsnæði í fasteignaskrá og þar bjó nokkur fjöldi erlends verkafólks. Í eldsvoðanum lést maður sem búið hafði í húsinu.

Daginn eftir eldsvoðann birtust vær greinar eftir Hjálmar á Samstöðinni. Annars vegar var frétt undir fyrirsögninni „Lést í húsi Péturs, Jóns Einars og Arnars“  og hins vegar undir fyrirsögninni „Arnar, Pétur Árni og Jón Einar eru nútíma þrælahaldarar“. 

Eigendur Elju, þeir Arnar Hauksson, Jón Einar Eyjólfsson og Pétur Árni Jónsson, gerðu þá kröfu að eftirtalin ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk:

  1. Arnar, Pétur Árni og Jón Einar eru nútíma þrælahaldarar.
  2. Sannleikurinn er þó að Elja stundar nútíma þrælahald, sem hefur nú dregið mann til dauða á Íslandi.
  3. Það er ekki að ástæðulausu sem það má með sanni kalla þessa menn þrælahaldara.

Orðið þrælahald notað með almennum hætti

Í máli eigenda Elju gegn Hjálmari var deilt um hvort framangreind ummæli hafi falið í sér ærumeiðingar sem brjóti gegn 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga og friðhelgi einkalífs eigenda Elju eða hvort ummælin rúmist innan tjáningarfrelsis Hjálmars.

Dómurinn féllst ekki á að orðið þrælahaldari eða nútíma þrælahaldari fæli í sér staðhæfingu eða ásökun um refsibrot. 

„Til þess er að líta að orðið þrælahaldarar getur vissulega vegið að mannorði þess sem það er haft um. Ekki er þó á það fallist að það vísi eitt og sér til tiltekins refsiverðs verknaðar sem viðkomandi er sakaður um, en í því sambandi hafa stefnendur vísað til 227. gr. a í almennum hegningarlögum. Telja verður að orðin þrælahald og þrælahaldari séu raunar oft notuð með almennum hætti um háttsemi sem sá sem orðin notar telur ámælisverða.“ 

Dómurinn taldi að þrátt fyrir að ummælin hafa verið óvægin hafi Hjálmar, sem blaðamaður og sem þátttakandi í þjóðfélagsumræðu, ekki farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns.

Ekkert að mynd- og nafnbirtingunni

Þremenningarnir gerðu einnig athugasemdir við myndbirtingu af þeim í fréttum Hjálmars. Byggðu þeir á meginreglunni um réttinn til eigin myndar og friðhelgi einkalífs síns skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Dómurinn taldi tjáningarfrelsi Hjálmars til birtingar umræddrar myndar vega þyngra en friðhelgi þeirra til einkalífs og réttur þeirra til eigin mynda.

„Í þessu sambandi getur ekki haft úrslitavægi hvort sá einstaklingur sem lést í brunanum að Funahöfða 7 hafi á þeim tíma verið atvinnulaus og því ekki starfsmaður Elju, eins og stefnendur halda fram. Við þessar aðstæður getur skerðing á frelsi fjölmiðla til að fjalla um þessi málefni ekki talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Verður þannig lagt til grundvallar að nægar ástæður hafi verið fyrir hendi sem réttlættu umfjöllunina í heild, einnig myndbirtingu og nafngreiningu stefnenda, enda skipti grundvallarmáli hvort hið birta efni, bæði myndir og texti, teljist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings,“ segir í niðurstöðu dómsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka