Vélarbilun hjá Play í gær olli mikilli röskun á flugkerfi flugfélagsins og hafði þau áhrif að flugi til og frá Billund var aflýst til þess að lágmarka skaða. Íslensk kona í Billund sem átti flug til Íslands sér nú ekki fram á að eyða áramótunum með fjölskyldu sinni.
Embla Vigdís Árnadóttir býr í Álaborg með kærasta sínum og eins árs barni sínu og átti fjölskyldan flug til Íslands frá Billund klukkan 11:30 í dag.
Er fjölskyldan reis á fætur klukkan 5 í morgun kom í ljós að þau hefðu fengið tölvupóst klukkan 4, rúmlega sjö tímum fyrir flug, um að fluginu hefði verið aflýst vegna tæknivandamála.
Hún segir sig og kærasta sinn hafa skoðað alls konar möguleika en staðan sé sú að öll önnur flug séu annaðhvort uppseld eða kosti „hálfan handlegg“ og þá séu þau flug frá Kaupmannahöfn en ekki Billund.
„Þannig að við komumst ekki heim um áramótin, sem er bara ömurlegt.“
Segir hún planið hafa verið að koma heim til að eyða áramótunum með fjölskyldu sinni en hún á einnig 11 ára gamlan son sem er staddur á Íslandi með föður sínum og átti að fljúga með þeim til baka 3. janúar.
Þá segir hún fátt um svör frá flugfélaginu en faðir hennar hefur verið í sambandi við Play í dag þar sem einungis er boðið upp á samskipti í gegnum gervigreindar samskiptaforrit.
„Það er engin þjónusta. Það er ekki neitt. Það eina sem ég fékk tilboð um var að fá miðann endurgreiddan. Það er ekki einu sinni boðið okkur upp á flug á öðrum tímapunkti. Þannig þetta er bara ömurleg aðstaða. Ógeðslega leiðinlegt.“
Þá nefnir Embla að hún hafi heyrt af því frá föður sínum að vélinni sem fjölskyldan átti flug með virtist fljúga í staðinn til Berlínar í dag, frekar en Billund, en það myndi þýða að vélarbilunin hafi ekki komið upp í þeirra vél.
Nefnir Embla að ef atvik eins og þetta hefði komið upp á öðru tímabili hefði verið auðveldara að bjarga málunum en á jólatímanum sé allt annaðhvort uppselt eða þá rándýrt.
„Ég var að skoða þetta og ég get fengið í gegnum [flugfélagið] SAS 15 klukkutíma ferðalag á einhverjar 200.000 krónur, bara aðra leiðina,“ segir Embla.
„Við erum búin að reyna að skoða alls konar. Það virðist bara ekki vera neitt sem gengur upp,“ bætir hún við.
Aðspurð segir hún atvikið skilja eftir súrt bragð í munni gagnvart flugfélaginu.
„Maður treystir ekkert á að geta flogið með þeim aftur. Maður er alltaf með þessa upplifun í huga þegar maður er að fara að bóka næst.“
Tekur hún fram að auðvitað geti þó allt gerst en finnst henni að illa hafi verið farið að verkum þegar fluginu var aflýst.
Við fáum bara skilaboð klukkan fjögur að fluginu sé bara aflýst. Það er engin seinkun eða reynt að finna annað flug, þessu er bara aflýst. Punktur. Þú færð ekki að fljúga.
Hún segir málið leiðinlegt en tekur þó fram að lokum að fjölskyldan muni reyna að gera það besta úr stöðunni heima í Álaborg.
„Það þýðir ekkert annað.“
Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, segir í samtali við mbl.is að upp hafi komið bilun í vél í gær sem olli mikilli röskun á kerfi flugfélagsins.
„[...] sem veldur því að það þurfti að breyta kerfinu til þess að lágmarka sem mestan skaða af svona bilun. Útkoman er þessi. Við hörmum það og alla sem þetta hefur áhrif á.“
Spurður um hvort vélarbilun hafi komið upp í vél sem átti að fara til Berlínar og að það hafi þá verið notað aðra vél sem varð til þess að flugi til og frá Billund hafi verið aflýst segist Birgir ekki vita nákvæmlega hvert bilaða vélin átti upphaflega að fara. Bilunin hafi þó valdið keðjuverkandi áhrifum.
Hann segir flugfélagið hafa þurft að raða kerfi sínu upp þannig að vélarbilunin myndi valda sem minnstu röskun fyrir flesta farþega en að auðvitað hafi hún valdið röskun fyrir einhverja farþega flugfélagsins.
Þá nefnir hann að búið sé að bjóða þeim farþegum endurgreiðslu fyrir miðakaupin og að starfsmenn flugfélagsins hafi unnið að því í allan dag við að reyna að aðstoða fólk við að fá ný flug.