Fólk á fleiri en 30 bifreiðum þurfti aðstoð

Björgunarsveitir að störfum á Vatnsskarði í kvöld.
Björgunarsveitir að störfum á Vatnsskarði í kvöld. Ljósmynd/Landsbjörg

Allt í allt hafa björg­un­ar­sveit­ir aðstoðað fólk á yfir 30 bif­reiðum í kvöld. Flest­ir þurftu aðstoð á Vatns­skarði, en veg­in­um þar um var lokað fyrr í kvöld.

Aðgerðum björg­un­ar­sveita Slysa­varn­ar­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar var að mestu leyti lokið er blaðamaður hafði sam­band við Jón Þór Víg­lunds­son, upp­lýs­inga­full­trúa Lands­bjarg­ar, um klukk­an 21.45 í kvöld.

Upp­haf­lega var til­kynnt um eða yfir 20 bíla á Vatns­skarði, ein­hverja bíla í Skagaf­irðinum og út að Hofsósi. Svo voru ein­hverj­ar bif­reiðar á Kletts­hálsi og Holta­vörðuheiði.

Skyggni var slæmt á Vatnsskarði.
Skyggni var slæmt á Vatns­skarði. Ljós­mynd/​Lands­björg

Veðrið að skána

Marg­ar björg­un­ar­sveit­ir hafa sinnt þess­um út­köll­um. Eins og gef­ur að skilja var mesta vinn­an á Vatns­skarði og flest björg­un­ar­sveitar­fólk.

Komu sum­ir frá Björg­un­ar­fé­lag­inu Blöndu og Björg­un­ar­sveit­inni Strönd á Skaga­strönd. Flug­björg­un­ar­sveit­in í Varma­hlíð fór á skarðið aust­an frá.

„Ein­hverj­ir höfðu lent út af og aðrir voru fast­ir. Það þurfti svo­lítið að vinna á þessu einn bíl í einu. Ein­hverj­um var fylgt niður og aðrir gátu farið á eig­in veg­um,“ seg­ir Jón Þór.

Veðrið á svæðinu virðist vera að skána og orðið ágætt í Langa­dal, að sögn Jóns Þórs.

„Þetta er allt að leys­ast,“ seg­ir Jón Þór af mik­illi yf­ir­veg­un.

Þrjú börn meðal farþega

Á Kletts­hálsi kom björg­un­ar­sveitar­fólk frá Heima­mönn­um á Reyk­hól­um, Lóm­felli á Barðaströnd og Blakki á Pat­reks­firði níu manns á tveim­ur bif­reiðum til aðstoðar. Meðal farþega voru þrjú börn.

Björg­un­ar­sveit­in Heiðar í Borg­ar­f­irði aðstoðaði fólk sem lenti í vand­ræðum á bif­reið sinni á sunn­an­verðri Holta­vörðuheiði.

Flug­björg­un­ar­sveit­in í Varma­hlíð kom ferðalöng­um í Blöndu­hlíð til aðstoðar.

Einnig kom björg­un­ar­sveitar­fólk frá öðrum lands­hlut­um að verk­efn­um kvölds­ins sem aðgerðastjórn­end­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert