„Þetta skiptir okkur töluvert miklu máli“

Yfir 100 sölustaðir eru um allt land.
Yfir 100 sölustaðir eru um allt land. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flugeldasala björgunarsveita Landsbjargar fer rólega af stað, eins og undanfarin ár. Sölustaðir opnuðu í gær.

„Það er mjög ríkt í Íslendingum að kaupa flugelda daginn fyrir eða á gamlársdag,“seg­ir Jón Þór Víg­lunds­son, upp­lýs­inga­full­trúi Lands­bjarg­ar, í sam­tali við mbl.is.

Flugeldarnir eru seldir á yfir 100 stöðum um allt land. Þá bjóða sumar björgunarsveitir fólki einnig upp á að kaupa flugelda á netinu. Jón Þór segist hafa heyrt frá björgunarsveitarmönnum á Akureyri í gær sem hafi sagt netsöluna hafa farið vel af stað.

Börn koma gjarnan með foreldrum sínum að kaupa flugelda.
Börn koma gjarnan með foreldrum sínum að kaupa flugelda. mbl.is/Árni Sæberg

Skilar miklu rekstrafé

Flugeldasalan er björgunarsveitum mjög mikilvæg. „Þetta er fjáröflun sem skilar sveitunum gríðarlega miklu rekstarfé,“ segir Jón Þór. Hann vonast til að góð veðurspá haldist, því veðrið hefur vissulega mikil áhrif á söluna.

„Við erum vongóð um að salan í ár gangi vel. Þetta skiptir okkur töluvert miklu máli,“ segir Jón Þór. 

Landsbjörg er með 93 björgunarsveitir hringinn í kringum landið. Jón Þór segir flugeldasöluna vera mikilvægan lið í því að hægt sé að halda úti öflugu starfi.

„Þetta gerir það að verkum að við getum verið með 93 björgunarsveitir tilbúnar. Það kostar ekki endilega mikið að fara í eitt útkall. Meginkostnaðurinn liggur í því að vera tilbúinn til þess að fara í útkallið,“ segir Jón Þór og nefnir mikilvægi þess að vera með vel þjálfaðan mannskap og búnað, eins og t.d. bíla, vélsleða, fluglínutæki og siglínur. „Þetta er það sem kostar, að halda þessu við, endurnýja reglulega og þjálfa mannskapinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert