Yfir 140 skjálftar í „ekkert óeðlilegri“ hrinu

Skjálfti 3,2 að stærð hleypti hrin­unni af stað um klukkan …
Skjálfti 3,2 að stærð hleypti hrin­unni af stað um klukkan fjögur í nótt. mbl.is/RAX

Yfir 140 skjálftar hafa mælst í jarðskjálftahrinu á Reykjaneshrygg frá því að hún hófst um klukkan 4 í nótt. Hún virðist samt vera að dragast örlítið saman, að sögn náttúruvársérfræðings, þó of snemmt sé að segja til um það.

„Hún er ekkert óeðlileg í lengd né stærð,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni.

„Hún er bara dálítið hefðbundin sem skjálftahrina,“ bætir hún við en tekur fram að vísindamenn á Veðurstofunni eigi oft vandræðum með að staðsetja skjálfta úti á hafi þar sem allir skjálftamælar stofnunarinnar eru á landi. Þó er búið að koma fyrir mæli í Eldey.

Til vonar og vara spurði blaðamaður hvort gos væri nokkuð þegar hafið úti á sjó. Sigríður svaraði neitandi.

Gæti tekið annað stökk

Hrinan hófst með stórum skjálfta (3,2) um klukkan 4 í morgun og fjaraði síðan út, þar til annar stór skjálfti (3,8) reið yfir um klukkan 14 og blés nýju lofti í hrinuna. Nú hafa ríflega 140 skjálftar mælst í hrinunni.

Sigríður segir þó að örlítið hafi dregið úr virkninni, þó í raun sé of snemmt að segja til um það enda gæti hún tekið stökk að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka