Bryndís Klara Birgisdóttir var útnefnd manneskja ársins á Rás 2 að mati hlustenda rásarinnar. Bryndís Klara lést eftir hnífaárás á Menningarnótt og hafði sá voveiflegi atburður mikil áhrif á Íslendinga og íslenskt samfélag.
Minningarsjóður var stofnaður í kjölfar andláts Bryndísar Klöru, sem ætlað er að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, er verndari minningarsjóðsins.
Guðrún Dís Emilsdóttir las upp einn af þeim textum sem barst Rás 2 til rökstuðnings þess að Bryndís Klara hlyti nafnbótina.
„Á Menningarnótt í Reykjavík steig Bryndís Klara fram í ótrúlegri hetjudáð. Hún stöðvaði hnífaárás á vinkonu sína með því að toga árásarmanninn frá sem stakk Bryndísi í hjartastað. Því miður kostaði hugrekkið og óeigingirni Bryndísar hana lífið. Þjóðin sameinaðist í sorg og samhug.
Viðbrögðin voru einstök og það er henni að þakka að góðgerðarverkefni, minningarsjóðir og bylgja vitundarvakningar um ofbeldi hafa sprottið upp. Minning hennar hefur snert alla. Fjölmargir segja að hún hafi ekki bara bjargað einu lífi heldur margra í framtíðinni með þessu einstaka fordæmi. Hún er hetja ársins.“
Birgir Karl Óskarsson og Iðunn Eiríksdóttir, foreldrar Bryndísar Klöru, sögðust í samtali við Rás 2 vera gífurlega hrærð og meir yfir því hve minning dóttur þeirra lifir í hjörtum þjóðarinnar. Þá sögðust þau vera umfram allt ótrúlega stolt af dóttur sinni fyrir manneskjuna sem hún var, þó að sorgin og söknuðurinn sé gríðarlegur.
Birgir sagði hana hafa ákveðið á Menningarnótt að stíga inn í aðstæður sem kostuðu hana lífið vegna þess að ókunnugum unglingsstrák þótti gáfulegt að taka með sér vopn.
Sögðu þau Birgir og Iðunn ótrúlegt að finna aflið í samfélaginu og hvernig allir hafi komið saman til að láta andlát hennar ekki verða til einskis. Iðunn sagðist finna sterkt fyrir vitundarvakningunni og bæði töluðu þau sérstaklega um unga fólkið í því samhengi.
Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.