Fleiri eldsstöðvar byrsta sig

Horft yfir að vökinni í Öskjuvatni.
Horft yfir að vökinni í Öskjuvatni. mbl.is/Árni Sæberg

Þó svo að eldgos á Reykjanesskaga hafi stolið sviðsljósinu í heimi jarðfræðinnar á liðnu ári þá hafa fleiri eldstöðvar á landinu verið að byrsta sig. 

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir ósennilegt að það verði jafn mörg gos á komandi ári og á árinu sem er að líða.

Alls voru sex eldgos og voru þau öll við Grindavík. 

Landris í Öskju

Ekki er ólíklegt að það haldi áfram að gjósa á Sundhnúkagígaröðinni á næsta ári, en gæti gosið í öðrum landshlutum en á suðvesturhorninu á nýju ári?

„Það hefur kannski ekki verið mikil athygli á því en það er landris í Öskju og búið að vera núna í tvö ár. Það getur ekki haldið endalaust áfram, það gæti farið af stað eldvirkni þar á næstu misserum eða árum – vitum það ekki,“ segir Magnús Tumi.

Hann segir að það þyrfti líklegast ekki að hafa miklar áhyggjur af slíku gosi.

„Þetta er lifandi land“

Magnús nefnir að Grímsvötn séu að þenjast út en þar gaus síðast árið 2011 og að Bárðarbunga sé að lyftast, en í Holuhrauni gaus síðast 2014-15. Hann segir einnig Heklu vera að lyftast.

„Þetta er lifandi land,“ segir Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert