Ökumönnum var fylgt yfir Vatnaleið á Snæfellsnesi eftir tæplega tveggja klukkustunda lokun á veginum vegna umferðarslyss. Vatnaleið er eini vegurinn sem hefur verið opinn fyrir umferð bíla inn á norðanvert Snæfellsnes í dag. Fjöldi lögreglubíla og vinnuvéla aðstoðuðu ökumenn við Vegamót.
Talsverður lausasnjór er á Vesturlandi og með deginum tók að blása úr norðaustri. Þá gerði skafrenning og blindu og vegir tepptust.
Óvissustig er í gildi á veginum um Vatnaleið vegna veðurs og getur hann lokast með stuttum fyrirvara.
Vegurinn um Staðarsveit er ófær vegna veðurs og vegurinn um Fróðárheiði er lokaður vegna veðurs.
Á Vestfjörðum er snjóþekja eða hálka á flestum leiðum, þæfingur á Dynjandisheiði og norður í Árneshrepp en þungfært á Örlygshafnarvegi.