Hætt við að Hellisheiði verði ófær

Hætt er við því að Hellisheiðin verði ófær í kvöld …
Hætt er við því að Hellisheiðin verði ófær í kvöld og nótt. mbl.is/Óttar Geirsson

Hætt er við því að Hellisheiðin verði ófær í kvöld og nótt vegna hríðarveðurs sem þar á að ganga yfir. 

Þetta segir Elva Brá Bjarkadóttir hjá umferðarþjónustu Vegagerðarinnar.

Hún segir aðstæður einnig varasamar við Mýrdalssand í kvöld.

Gular viðvaranir gefnar út

Í samtali við mbl.is segir Elva að Hellisheiðin sé ágæt um þessar mundir. Hálka sé þó á veginum og mögulega einhver skafrenningur.

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir á Suðvesturlandi og Suðurlandi sem munu taka gildi klukkan 20 og 22 í kvöld og ná fram á morgun. Setur það spurningarmerki við hvort heiðin verði fær seinna í kvöld.

Elva segir að hætt sé við því að það verði ófært en Vegagerðin muni reyna að halda heiðinni opinni.

Hætta að þjónusta klukkan hálftíu í kvöld

Þá er vindurinn að aukast, sérstaklega undir Hafnarfjalli þar sem hann hefur verið að slá upp í 28 m/s í hviðum og má búast við skafrenningi þar í kvöld.

Elva minnir á að Vegagerðin hætti að þjónusta veginn klukkan hálftíu í kvöld. Eftir þann tíma verði spurning um hvort vegurinn verði fær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert