Heimdallur biðlar til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins að fresta ekki landsfundi flokksins.
Þetta kemur fram í ályktun félagsins vegna umræðu um tímasetningu fyrirhugaðs landsfundar. Til skoðunar er að fresta fundinum sem á að halda í lok febrúar samkvæmt skipulagi.
Í ályktun félagsins segir meðal annars að nú blasi við nýr raunveruleiki í stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem nú er í fyrsta sinn í stjórnarandstöðu í meira en áratug.
Þá segir að þetta sé tíminn fyrir sjálfstæðismenn til að koma saman og marka upphafið að stjórnarandstöðunni.
Eins og kom fram í frétt mbl.is um helgina eru skiptar skoðanir meðal formanna málefnanefnda Sjálfstæðisflokksins um hvort leggja eigi til við miðstjórn að fresta landsfundi fram á vor eða haust.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins sagðist telja ákveðin rök hníga að því að fresta landsfundi.
Í ályktun Heimdallar segir:
Undanfarna daga hefur komið fram umræða um dagsetningu fyrirhugaðs landsfundar og hvort það eigi að fresta honum, jafnvel fram á haust.
Nú blasir við nýr raunveruleiki í stjórnmálunum. Sjálfstæðisflokkurinn er í fyrsta sinn í stjórnarandstöðu í meira en áratug og fékk lægsta fylgi í sögu flokksins í nýafstöðnum kosningum. Aftur á móti kom töluvert magn af nýju öflugu fólki, sérstaklega ungu fólki, inn í flokksstarfið í kosningabaráttunni. Núna er einmitt tíminn fyrir okkur sjálfstæðismenn að koma saman, stilla saman strengi okkar og marka upphafið í stjórnarandstöðu.
Allar forsendur um veðurfar eru þær sömu og lágu fyrir þegar fundinum var frestað upprunalega, þegar fyrir lá að halda hann síðastliðið haust. Landsfundir Sjálfstæðisflokksins hafa verið haldnir í febrúar í gegnum tíðina, svo dagsetningin sem liggur nú fyrir er engin nýmæli. Undirbúningur málefnastarfs er forsvaranleg afsökun, en eðlilegra væri að miðstjórn gæfi aukinn frest fyrir skil frá málefnanefndum frekar en að fresta fundinum sjálfum í annað skiptið. Fordæmi var gefið fyrir slíkum breytingum á reglum flokksins, þegar kemur að tímafrestum, í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar.
Heimdellingar biðla til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins að fresta ekki landsfundinum 28. febrúar - 2. mars.