Mennirnir þrír sem voru handteknir í nótt vegna hnífaárásar í húsi á Kjalarnesi eru á fimmtugsaldri.
Þetta segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Tilkynning um málið barst skömmu fyrir klukkan eitt í nótt og var lögregla með mikinn viðbúnað. Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til.
Segir í tilkynningunni að svo virðist sem ósætti og ágreiningur hafi komið upp hjá mönnunum og í framhaldinu var hnífi beitt.
Nokkrir hlutu áverka í árásinni, en einn þó sýnu verst og er sá alvarlega slasaður.
Hinir handteknu eru allir á fimmtugsaldri, rétt eins og sá sem slasaðist mest.
Ekki er hægt að greina nánar frá málinu að svo stöddu.