Hvar á að henda flugeldarusli?

Oft er mikið flugeldarusl á götum borgarinnar eftir áramótin.
Oft er mikið flugeldarusl á götum borgarinnar eftir áramótin. mbl.is/G.Rúnar

Reykjavíkurborg hefur sett upp gáma á tíu grenndarstöðum í borginni þar sem hægt verður að henda flugeldarusli á nýársdag.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að mikilvægt sé að koma þessu rusli á sinn stað áður en það brotnar niður og verður að drullu.

„Þó svo að flugeldar séu úr pappa, þá er notaður leir í botninn sem gerir að verkum að pappinn sem eftir verður er ekki hæfur til endurvinnslu,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Frá og með 2. janúar verði tekið á móti leifum af flugeldum á endurvinnslustöðvum Sorpu á venjulegum opnunartíma.

Ósprungnir flugeldar fara í spilliefnagáma á endurvinnslustöðvum Sorpu.

Staðsetningar gámanna tíu eru þessar:

  • Vesturbær – grenndarstöð við Hofsvallagötu (Vesturbæjarlaug)
  • Miðborg – grenndarstöð Eiríksgötu (við Hallgrímskirkju)
  • Hlíðar – grenndarstöð við Flókagötu (Kjarvalstaði)
  • Laugardalur – grenndarstöð við Sundlaugaveg (Laugardalslaug)
  • Háaleiti-Bústaðir – grenndarstöð við Sogaveg
  • Breiðholt – grenndarstöð við Austurberg
  • Árbær/Selás – grenndarstöð við Selásbraut
  • Grafarvogur – grenndarstöð í Spöng
  • Grafarholt/Úlfarsárdalur – grenndarstöð Þjóðhildarstíg (við Krónuna)
  • Kjalarnes – við grenndarstöð
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert